Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að fjögur börn hefðu verið meðal sex einstaklinga sem særðust í loftárás á heilsugæslustöð í norðurhluta Gasa í dag þar sem bólusetningar við mænusótt eru um þessar mundir framkvæmdar.
WHO hóf í dag að nýju aðra bólusetningarlotu í norðurhluta Gasa eftir að hafa neyðst til að fresta henni vegna sprengjuárása Ísraela.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, segir að heilsugæslan sé á svæði þar sem samþykkt hafi verið að gera mannúðarhlé í stríðinu til að geta bólusett fólk.
Hann gaf ekki upp hver hafi staðið að árásinni en Ísraelar hafna ásökunum um að dróni frá þeim hafi skotið flugskeytum á heilsugæsluna.