Formaður nefndar um eftirlit með lögreglu segir nefndinni ekki hafa borist ábendingar um handtöku 13 ára drengs fyrir framan stjórnarráðið.
Kveðst formaðurinn, Skúli Þór Gunnsteinsson, hafa athugað sérstaklega hvort erindi hafi borist eftir að hafa fengið fyrirspurn frá fjölmiðlum þess efnis fyrir helgi. Það geti aftur á móti tekið einhvern tíma fyrir slík erindi að berast.
Skúli útilokar ekki að málið verði tekið fyrir af nefndinni jafnvel þó að engin formleg ábending berist.
Hann kveðst ekki hafa séð myndskeiðið af handtöku drengsins á mótmælunum við Stjórnarráðið né þekki hann aðdragandann að henni. Vel geti verið málefnalegar ástæður fyrir handtöku barns og það eitt og sér kalli ekki endilega á að nefndin taki málið fyrir.
En þó að það geti verið ástæða fyrir því að handtaka 13 ára barn, má beita barn líkamlegu valdi, leggja það niður á jörðina og setja hné á bak þess?
„Það fer eftir aðstæðum, hvort það sé mótþrói eða annað slíkt það verður bara að meta eftir hverju atviki fyrir sig. En það ber náttúrulega að gæta meðalhófs og gæta sérstakrar varkárni þegar börn eru annars vegar,“ segir Skúli.
„Þetta er bara eitthvað sem þarf að skoða ef það kemur inn kvörtun eða ef nefndin ákveður að taka málið til skoðunar.“
Hver sá sem telur að starfsmaður lögreglunnar hafi framið refsivert brot í starfi, viðhaft ámælisverða starfsaðferð eða framkomu í starfi, eða hver sá sem er ósáttur við almenna starfshætti lögreglu getur leitað beint til nefndarinnar með tilkynningu og óskað eftir að mál hans verði tekið til athugunar.
Spurður hvers kyns tilvik nefndin taki til skoðunar nefnir Skúli sem dæmi ábendingar sem bárust um starfshætti lögreglu við mótmæli í Skuggasundi fyrr í ár.
„Það leit frekar illa út til að byrja með og þetta varðaði réttinn til mótmæla og okkur leist ekkert vel á þetta alla vega út frá því sem birtist í fjölmiðlum,“ segir Skúli en bætir við að eftir að hafa séð efni úr búkmyndavélum lögreglu hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að lögregla hefði gætt meðalhófs í störfum sínum.