Ákærðir fyrir háskalegar árásir

Tvær skotárásir voru gerðar og sprengjutilræði framið í verslun í …
Tvær skotárásir voru gerðar og sprengjutilræði framið í verslun í sænska bænum Södertälje um leið og lögregla lagði af svokallað öryggissvæði sem þar stóð í tvær vikur í júlí. AFP

Þrír menn eru ákærðir fyrir jafn mörg brot í sænska bænum Södertälje, um 35 kílómetra suðvestur af höfuðborginni Stokkhólmi, og vekur það athygli að öll brotin þrjú eru framin á jafn mörgum dögum og það fyrsta 20. júlí, daginn sem lögregla lagði af svokallað öryggissvæði í Södertälje þar sem lögregla hafði mikla viðveru.

Var öryggissvæðið við lýði í tvær vikur og gaf lögregla það út fyrir fram að vegfarendur mættu búast við fyrirvaralausri líkamsleit og leit í bifreiðum. Við þetta var staðið og framkvæmdi lögregla 181 líkamsleit, leitaði í 25 bifreiðum, handtók sjö manns og lagði hald á eitt vopn.

Meiddist alvarlega í verslun

Að loknu öryggistímabilinu, sama dag og því lauk sem fyrr segir, var þrettán skotum skotið að íbúð í Västergård og daginn eftir var skotið á einbýlishús í Brunnsäng. Varð engum meint af þessum tveimur atvikum, en því var ekki að fagna þriðja daginn þegar handsprengju var varpað inn í matvöruverslun með þeim afleiðingum að kona, sem þar var stödd, meiddist alvarlega við að fá glerbrot á fleygiferð í sig þegar sprengjan sprakk. Aðrir viðskiptavinir hlutu vægari áverka.

Eftir því sem Ida Arnell saksóknari greinir sænska ríkisútvarpinu SVT frá beindist árásin gegn ákveðnum einstaklingum og sæta nú tveir sautján ára gamlir piltar og 27 ára gamall karlmaður ákæru fyrir árásirnar.

Annar hinna sautján ára gömlu er borinn þyngstum sökum en samkvæmt ákæru er hann grunaður um stórfelld skemmdarverk á almannafæri og manndrápstilraun á meðan hinir tveir eru ákærðir fyrir samverknað við téð brot auk vopnalagabrots og sá 27 ára gamli við samverknað við skotárás með því að hafa pantað leigubíl fyrir þann sem skaut.

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka