Voveiflegur líkfundur á háalofti

Beinagrind fannst á háalofti húss í bænum Erstroff í Norðaustur-Frakklandi …
Beinagrind fannst á háalofti húss í bænum Erstroff í Norðaustur-Frakklandi um helgina og hallast menn nú að því að þar sé kominn íbúi hússins sem hvarf sporlaust árið 2009, þá 81 árs. Skjáskot/Google Maps

Nýja eigendur húss nokkurs í Erstroff í Norðaustur-Frakklandi, handan landamæranna frá þýsku borginni Saarbrücken, rak í rogastans er þeir uppgötvuðu síðdegis á laugardaginn jarðneskar leifar manneskju á háalofti hússins sem fólkið hafði keypt í fyrra í kjölfar andláts roskinnar ekkju er þar bjó.

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma er líkið, sem ekkert var eftir af nema beinagrindin er nýju eigendurnir fundu það, af eiginmanni ekkjunnar látnu en hann hvarf sporlaust árið 2009, þá 81 árs að aldri.

Leitað dyrum og dyngjum

Olivier Glady, saksóknari í nágrannabænum Sarreguemines, ræðir við AFP-fréttastofuna og segir af fundinum. Kveður hann líkið „að öllum líkindum“ vera af umræddum manni, en staðsetning þess var þannig að örðugt var að komast að líkinu sem lá undir súð hússins.

Rannsakar lögregla nú dánarorsök mannsins, sé þetta hann, og hafa líkamsleifarnar verið sendar til Strasborgar til skoðunar.

Hvarf hans á sínum tíma var rannsakað ítarlega og hans leitað dyrum og dyngjum án þess að nokkurn árangur bæri, eftir því sem staðardagblaðið Le Republicain Lorrain greinir frá.

„Fundarstaður líksins bendir til sjálfsvígs,“ segir Glady saksóknari við AFP og bendir á þá nöturlegu staðreynd að reipi hafi enn hangið í bjálka á háaloftinu sem bendir til þess að gamli maðurinn hafi stytt sér aldur með því að hengja sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka