Trump búinn að greiða atkvæði

Donald Trump ásamt eiginkonu sinni Melaniu á kjörstað fyrr í …
Donald Trump ásamt eiginkonu sinni Melaniu á kjörstað fyrr í dag þar sem þau greiddu atkvæði í forsetakosningunum. AFP/CHIP SOMODEVILLA

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, fer fullur sjálfstrausts inn í kjördag. Þegar hann greiddi atkvæði í dag sagðist hann hafa fulla trú á að kosningaherferð hans muni skila árangri.

Trump og eiginkona hans Melania greiddu atkvæði á kjörstað í West Palm Beach í Flórídaríki.

Sagði Trump við blaðamenn á staðnum að hann tryði því að kosningaherferð sín hefði verið mjög góð gegn keppinaut sínum Kamölu Harris.

Þá sagðist hann einnig að hann myndi viðurkenna ósigur ef kosningin yrði sanngjörn.

„Ef ég tapa kosningunum, ef þetta eru sanngjörn úrslit, þá myndi ég verða sá fyrsti til að viðurkenna það.“

Stuðningsmennirnir ekki ofbeldismenn

Trump ítrekaði þó gagnrýni sína á rafrænar kosningavélar og gaf hann til kynna að þær væru óöruggari en atkvæðaseðlar á pappír.

Spurður að því hvort hann óttaðist að stuðningsmenn hans myndu bregðast við með ofbeldisfullum hætti eftir kosningarnar, ef hann bæri ekki sigur úr býtum, og hvort hann myndi hvetja stuðningsmenn sína til að halda aftur af sér gagnrýndi hann spurningu blaðamannsins.

„Ég þarf ekki að segja þeim það, að það verði ekkert ofbeldi. Auðvitað verður ekkert ofbeldi. Stuðningsmenn mínir eru ekki ofbeldismenn,“ sagði Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka