Kjörstaðir hafa lokað í Georgíu, Indiana, Kentucky, Suður-Karólínu, Vermont og Virginíu.
ABC og New York Times greina frá því að Donald Trump sé búinn að tryggja sér kjörmenn Kentucky, sem eru átta talsins, og Indiana, sem eru ellefu talsins. Þá hafi Kamala Harris tryggt sér kjörmenn Vermont, sem eru þrír talsins.
Ekki er búið að telja öll atkvæði í ríkjunum en hvorki Kentucky, Indiana né Vermont eru sveifluríki. Helstu fréttamiðlar vestanhafs telja sig því geta fullyrt um þessa útkomu, sem var viðbúin.
Til að tryggja sér sigur þarf annar frambjóðandinn að tryggja sér 270 kjörmenn í heildina. Úrslit kosninganna munu að öllum líkindum ráðast í sveifluríkjunum sjö, Pennsylvaníu, Michigan, Wisconsin, Norður-Karólínu, Georgíu, Arizona og Nevada.