Kosningastjóri Harris: Líður vel með það sem við sjáum

Kamala Harris leiðir ekki í sveifluríkjunum samkvæmt nýjustu tölum.
Kamala Harris leiðir ekki í sveifluríkjunum samkvæmt nýjustu tölum. AFP/Andrew Harnik

Jen O'Malley Dillon, kosningastjóri Kamölu Harris forsetaframbjóðanda demókrata, biður kosningateymi sitt um að sýna þolinmæði.

Hún ítrekar að greiðasta leið Harris að sigri sé með því að tryggja kjörmenn í þeim ríkjum sem skipa Bláa vegginn svokallaða, en það eru Pennsylvanía, Wisconsin og Michigan.

Þetta kemur fram í tölvupósti til starfsmanna kosningaframboðsins. Miðlar vestanhafs greina frá innihaldi póstsins.

Eins og staðan er núna leiðir Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, í öllum ríkjum Bláa veggsins. Sú staða gæti þó breyst eftir því sem fleiri atkvæði verða talin.

Bíða enn fjölda atkvæða

Í póstinum segir kosningastjórinn baráttuna harða en að „þeim líði vel með það sem þau sjá“.

Hún sagði fleiri hafa mætt á kjörstað í Philadelphiu en kosningateymið hefði átt von á og að þau ættu enn von á að fá fjölda atkvæða frá Michigan, þar á meðal Detroit.

Þá væri enn fjöldi atkvæða ótalinn í Wisconsin.

„Við höfum sagt það í margar vikur að við værum hugsanlega ekki að fara að sjá úrslit í kvöld,“ sagði hún og hélt áfram: „Þau ykkar sem voru hérna árið 2020 þekkja þetta vel: það tekur tíma að telja öll atkvæðin og öll atkvæðin verða talin. Þannig virkar kerfið okkar. Það sem við vitum er að línurnar fara ekki að skýrast fyrr en snemma í fyrramálið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka