Ríkisstjórn Scholz sprungin

Olaf Scholz Þýskalandskanslari.
Olaf Scholz Þýskalandskanslari. AFP/Tobias Schwarz

Frjálslyndir demókratar í Þýskalandi (FDP) hafa slitið stjórnarsamstarfinu eftir að Olaf Scholz Þýskalandskanslari rak Christian Lindner fjármálaráðherra úr embætti í dag en hann taldi að ekki væri lengur traust á milli þeirra og væri því ómögulegt að vinna saman. 

Ríkisstjórn Scholz hefur staðið tæpt síðustu mánuði en hún samanstendur af þremur flokkum: Sósíaldemókrötum, Græningjum og FDP. Síðustu mánuði hafa þau tekist á um efnahagsmál landsins. 

Lindner var einn af fimm ráðherrum FDP en hinir fjórir ráðherrar flokksins ætla að afhenda afsagnir sínar á næstu dögum.

Þingið greiði atkvæði um hvort kosningum skuli flýtt

Scholz sagði í kvöld að hann ætlaði að óska eftir að þingið greiði atkvæði um traust til hans. 

Þannig geti þingið ákveðið hvort gengið verði fyrr til kosninga. Verði vantrauststillaga samþykkt verður hægt að halda kosningarnar í lok mars. 

Það er því ljóst að Þjóðverjar kunni að ganga til kosninga á næstu mánuðum en kosningarnar áttu að fara fram 28. september á næsta ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert