Trump og Pútín vilja tala saman

Donald Trump tilvonandi forseti Bandaríkjanna og Vladimír Pútín Rússlandsforseti, kveðast …
Donald Trump tilvonandi forseti Bandaríkjanna og Vladimír Pútín Rússlandsforseti, kveðast reiðubúnir til að ræða saman. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur óskað Donald Trump til hamingju með sigurinn í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.

Koma heillaóskirnar eilítið á óvart í ljósi þess að forsetinn sagði í gær að hann hygðist ekki ætla að óska forsetanum til hamingju heldur dæma hann af verkum hans í embættinu.

Pútín kallaði Trump „hugrakkan“ og hrósaði honum fyrir viðbrögð hans er hinn tvítugi Thomas Matthew Crooks reyndi að ráða honum bana á kosningafundi í borginni Butler í Pennsylvaníu.

„Fólk sýnir sitt rétta andlit í svona neyðartilvikum og þetta er gott dæmi um það og mér fannst hann bera sig vel og sýna að hann hefur hugrakkan mann að geyma.“

Efasemdir um áframhaldandi stuðning

Kvaðst forsetinn sömuleiðis reiðubúinn til að ræða við Trump.

Þá kvaðst Trump einnig tilbúinn að ræða við Pútín í viðtali í kvöld. Kvaðst hann líklegast hafa rætt við um 70 leiðtoga en þó ekki Pútín – enn sem komið er.

„En ég held að við munum ræða saman,“ bætti hann við.  

Áhyggjur hafa verið uppi um hvort Trump muni draga til baka stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu en Trump og varaforsetaefni hans JD Vance hafa ítrekað sett spurningarmerki við stuðninginn í kosningabaráttu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka