Konur og börn „næstum 70%“ látinna á Gasa

Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt þann fjölda almennra borgara sem hefur …
Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt þann fjölda almennra borgara sem hefur verið drepinn í stríði Ísraels á Gasasvæðinu. Konur og börn eru næstum 70% þeirra þúsunda dauðsfalla sem hafa verið staðfest. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt þann fjölda almennra borgara sem hefur verið drepinn í stríði Ísraels á Gasasvæðinu. Þær segja að konur og börn séu næstum 70% þeirra þúsunda dauðsfalla sem hafi verið staðfest.

Í nýrri skýrslu mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna er greint frá þeim „hryllilega raunveruleika“ sem almennir borgarar hafa staðið frammi fyrir bæði á Gasasvæðinu og í Ísrael síðan Hamas-samtökin gerðu árásir á Ísrael 7. október í fyrra.

Maður liggur ofan á líki á vörubíl við sjúkrahúsið al-Shifa …
Maður liggur ofan á líki á vörubíl við sjúkrahúsið al-Shifa í Gasaborg. Líkin voru flutt þangað eftir loftárás Ísraela á skóla, sem hefur verið breytt í neyðarskýli, í flóttamannabúðunum Al-Shiati í gær. AFP

Jafngildi stríðsglæpum

Fram kemur að alþjóðleg lög hafi verið brotin á margvíslegan hátt og varað er við því að þau jafngildi stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyninu og mögulega þjóðarmorði.

„Skýrslan sýnir hvernig almennir borgarar á Gasa hafa þurft að þjást vegna árásanna, þar á meðal á meðan á „algjöru umsátri“ Ísraelshers stóð á Gasa í upphafi,“ sögðu Sameinuðu þjóðirnar.

Einnig er bent á að ríkisstjórn Ísraels hafi brotið lög með því að liðka ekki um fyrir mannúðaraðstoð, leyfa eyðileggingu innviða fyrir almenna borgara og með endurteknum brottflutningi fjölda fólks.

Palestínumenn nota hjólastól til að flytja úr húsarústum konu sem …
Palestínumenn nota hjólastól til að flytja úr húsarústum konu sem missti fótlegg eftir árás Ísraelshers á flóttamannabúðirnar Jabalia á norðurhluta Gasasvæðisins í gær. AFP

Valdið fordæmalausum fjölda dauðsfalla

„Þetta framferði ísraelskra hersveita hefur valdið fordæmislausum fjölda manndrápa, dauða, meiðsla, hungursneyðar, veikinda og sjúkdóma,“ sagði einnig í skýrslunni.

„Vopnaðir palestínskir hópar hafa einnig hegðað sér á fjandsamlegan hátt og hefur það líklega átt sinn þátt í þeim skaða sem almennir borgarar hafa orðið fyrir.”

Segja tölurnar áreiðanlegar 

Næstum 43.500 manns hafa verið drepnir á Gasasvæðinu, að sögn heilbrigðisráðuneytis Palestínumanna.

Vegna skorts á aðgengi að gögnum hafa stofnanir Sameinuðu þjóðanna frá upphafi stríðsins á Gasa stuðst við tölfræði um fjölda látinna frá yfirvöldum á Gasa þar sem Hamas-samtökin ráða ríkjum.

Grátandi Palestínumenn fyrir utan sjúkrahúsið al-Shifa á Gasasvæðinu eftir að …
Grátandi Palestínumenn fyrir utan sjúkrahúsið al-Shifa á Gasasvæðinu eftir að lík voru flutt þangað í kjölfar loftárása Ísraelshers. AFP/Omar Al-Qattaa

Fyrir vikið hafa komið fram ásakanir frá Ísrael um að með þessu sé eingöngu verið að birta „áróður Hamas“ en Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað sagt að tölurnar séu áreiðanlegar.

Mannréttindaskrifstofan kveðst hafa tekist að sannreyna 8.119 af þeim yfir 34.500 manns sem eru sagðir hafa verið drepnir fyrstu sex mánuði stríðsins á Gasa og að þar af séu „næstum 70% börn og konur“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert