Kynlífsskandall hluti baráttu um valdastól

Baltasar Ebang Engonga, einnig þekktur sem „Bello“.
Baltasar Ebang Engonga, einnig þekktur sem „Bello“. Ljósmynd/Facebook

Um 150-400 kynlífsmyndböndum af háttsettum embættismanni í Miðbaugs-Gíneu hefur verið lekið á netið undanfarnar tvær vikur. Í myndböndunum sést embættismaðurinn stunda kynlíf með eiginkonum og ættingjum ýmissa ráðherra og herforingja landsins.

Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Myndböndin hafa valdið miklu hneyksli í Mið-Afríkulandinu en á þeim sést embættismaðurinn Baltasar Ebang Engonga, einnig þekktur sem „Bello“, stunda kynlíf á skrifstofu sinni.

Engonga er frændi Teodoro Obiang Nguema, forseta Miðbaugs-Gíneu, og hefur verið litið á hann sem mögulegan arftaka þegar forsetinn lætur af störfum.

Myndböndunum var lekið í lok október og tók ekki langan tíma fyrir íbúa landsins að bera kennsl á Engonga.

Möguleg barátta um valdastól

Varaforseti landsins, Teodoro Obiang Mangue, sem er einnig sonur forsetans, gaf fjarskiptafyrirtækjum sólarhring til að finna leiðir til að koma í veg fyrir dreifingu myndbandanna og tjáði hann sig einnig á miðlinum X.

„Við getum ekki haldið áfram að horfa á fjölskyldur sundrast án þess að grípa til aðgerða,“ skrifaði Mangue.

Þá upplýsti hann einnig að verið væri að reyna að hafa uppi á þeim er lak myndböndunum.

Þó hafa aðgerðasinnar í landinu varpað fram kenningu um hvaða ástæður gætu legið að baki lekans.

Haldið hefur verið fram að um sé að ræða baráttu um forsetastól landsins nú þegar forsetinn virðist vera að nálgast endalok sín, en hann er 82 ára gamall.

Hefur Mangue varaforseti verið sakaður um að standa að baki lekans og reyna að útrýma þeim sem gætu komið í veg fyrir að hann verði forseti á eftir föður sínum, en líkt og áður sagði þótti Engonga líklegur arftaki.

Hafa því sumir bent á að kynlífshneykslið sé einfaldlega lítill hluti af miklu stærra vandamáli sem er spilling landsins.

Handtekinn í lok október

Engonga var yfirmaður fjármálaeftirlits landsins en var handtekinn 25. október þar sem hann lá undir grun um að hafa misnotað stórfé úr ríkissjóði landsins og lagt þá fé inn á leynilega reikninga á Cayman-eyjum.

Var hann fluttur í fangelsi í Malabo, höfuðborg landsins, þar sem hann er talinn hafa sætt grimmilegri meðferð og var þá einnig lagt hald á síma hans, tölvu og önnur gögn.

Fljótlega eftir handtöku hans fóru svo myndböndin að birtast á netinu en er ekki þó vitað hvers vegna Engonga hafði tekið upp athafnirnar.

Hefur þá verið greint frá því að það muni að minnsta kosti ein kvennanna í myndböndunum leggja fram kæru á hendur Engonga vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka