Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir morð á tveimur börnum sínum í Södertälje í Svíþjóð í apríl.
Göteborgs Posten greinir frá þessu og segir að samkvæmt frumrannsókn hafi maðurinn kæft börnin með hjálp helíums. Maðurinn hefur játað verknaðinn, að því er segir í fréttatilkynningu frá ríkissaksóknara.
Það var í lok apríl á þessu ári sem lögreglu var gert viðvart í íbúðahverfinu Lina hage í Södertälje. Atvikinu var lýst sem alvarlegum glæp og voru tveir menn, kona og karlmaður, í upphafi handtekin.
Lögreglan greindi frá því daginn eftir að tvö börn hefðu látist og að morðrannsókn hefði verið hrundið af stað. Börnin voru bæði undir tíu ára aldri. Konunni var síðar sleppt en maðurinn var handtekinn grunaður um morðin og hefur nú verið ákærður.
„Þetta er afar hörmulegur atburður fyrir þá sem hlut eiga að máli. Mitt mat er að staða sönnunargagna sé mjög góð og byggist á yfirgripsmikilli og öflugri rannsókn á brotinu,“ segir Ulrika Rosén héraðssaksóknari í tilkynningu.
Geðrannsókn leiddi í ljós að maðurinn þjáðist ekki af neinni alvarlegri geðröskun og ekki heldur þegar brotið var framið.