Styrkti sig meðal kvenna og minnihlutahópa

Trump ásamt Susie Wiles, kosningastjóra og verðandi skrifstofustjóra Hvíta hússins.
Trump ásamt Susie Wiles, kosningastjóra og verðandi skrifstofustjóra Hvíta hússins. AFP/Getty Images/Chip Somodevilla

Þvert á það sem margar kannanir höfðu gert ráð fyrir þá styrkti Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, sig meðal kvenna í nýafstöðnum forsetakosningum. Kannanir spáðu þó rétt fyrir um það að hann myndi styrkja sig meðal minnihlutahópa.

Í kosningarannsókn AP-fréttastofunnar á 120 þúsund kjósendum má sjá gott niðurbrot á því hvernig mismunandi hópar í Bandaríkjunum kusu.

Rúmlega 8 af hverjum 10 kjósendum Trumps í þessum kosningum voru hvítir, sem er nokkurn veginn í samræmi við það sem var árið 2020.

Hvítir kusu frekar Trump

Um tveir þriðju kjósenda Kamölu Harris, forsetaframbjóðanda demókrata, voru hvítir og það jafnast að mestu á við fylgi Joes Bidens forseta í síðustu kosningum.

Hvítir kjósendur eru stærsti hluti kjósenda í Bandaríkjunum og þeir kusu álíka og í síðustu kosningum. Hins vegar styrkti Trump sig nú meðal fólks af öðrum kynþáttum.

56% af hvítum kjósendum kusu Trump á sama tíma og 43% kusu Harris.

Tvöfaldaði stuðning sinn meðal svartra

Trump tvöfaldaði hins vegar stuðning sinn meðal svartra kjósenda og hlaut 16% af heildaratkvæðum þeirra og má það að miklu leyti rekja til ungra svartra karlmanna en Trump fékk 30% þeirra atkvæða.

83% svartra kjósenda studdu Harris en Biden fékk 91% stuðning meðal sama hóps fyrir fjórum árum.

Trump fékk sögulegan mikinn stuðning meðal fólks af rómönskum uppruna en meðal þess hóps fékk hann 42% atkvæða á sama tíma og Harris fékk 55%.

Harris fékk 55% stuðning meðal fólks af öðrum kynþáttum og Trump fékk 41%.

Fólk með háskólagráðu kaus frekar Harris

56% af kjósendum með háskólagráðu kusu Kamölu Harris á sama tíma og 42% af kjósendum með háskólagráðu kusu Trump.

43% af kjósendum án háskólagráðu kusu Harris en 55% af kjósendum án háskólagráðu kusu Trump.

Harris fékk meiri stuðning meðal kvenna – hún hlaut 53% fylgi á móti 46% fylgi Trumps – en það er þó undir væntingum.

Biden hlaut 55% fylgi meðal kvenna en Trump 43% fyrir fjórum árum. Demókratar gerðu mikið úr aðgengi að þungunarrofi og vonuðust til þess að það myndi tryggja þeim sögulega mikinn stuðning meðal kvenna. Svo varð ekki.

Trump styrkti sig einnig meðal karlmanna en hann hlaut 54% atkvæða þeirra.

Styrkti sig verulega meðal ungs fólks

Þegar litið er á aldur kjósenda þá má sjá að Trump var sterkastur meðal kjósenda á aldrinum 45-64 ára og þar að auki eilítið sterkari meðal 65 ára og eldri. Yfir 60% af kjósendum í Bandaríkjunum eru eldri en 45 ára.

Þetta er ekki svo ólíkt stöðu hans í síðustu kosningum en mesta breytingin var meðal unga fólksins.

Trump fékk 46% atkvæða fólks á aldrinum 18-29 ára á sama tíma en fyrir fjórum árum fékk hann aðeins 36% stuðning hjá þeim aldurshópi.

Fylgið mismunandi eftir búsetu

Rétt eins og fyrir fjórum árum sótti Trump meiri styrk til dreifbýlis en andstæðingur hans í Demókrataflokknum.

Tæplega helmingur kjósenda, eða 45%, segist búa í úthverfum. Um helmingur þeirra kaus Harris en 46% Trump.

Trump hlaut atkvæði 6 af hverjum 10 sem búa í litlum bæjum eða dreifbýli en Harris hlaut atkvæði 6 af hverjum 10 í þéttbýli. Þessar tölur voru nokkurn veginn í takt við fylgið í kosningunum 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert