Njósnafyrirtækið Black Cube hefur áður verið sakað um að vinna að því að safna upplýsingum um frambjóðendur eða fólk tengt stjórmálum í viðleitni sinni til þess að hafa áhrif á kosningar erlendis.
Fram kom á mbl.is í gær að Sigurður G. Guðjónsson lögmaður teldi leyniupptökur af syni Jóns Gunnarssonar sem lekið var til fjölmiðla vera aðför að lýðræðinu.
Þannig voru uppi ásakanir um að fyrirtækið hefði notast við leyniupptökur til þess að draga úr trúverðugleika mannréttinda- og stjórnmálahreyfinga auk hagsmunaafla í Ungverjalandi sem voru andsnúin hægri öflum í landinu fyrir þingkosningar árið 2018.
Voru upptökurnar notaðar í þágu hægrimannsins Viktor Orban, sem ásamt flokki sínum Fidesz KDNP vann afgerandi kosningasigur árið 2018.
Svipað var uppi á teningnum fyrir þingkosningar í landinu árið 2022 þegar Black Cube er sagt hafa blekkt pólitíska aðgerðasinna og blaðamenn í gegnum samskiptamiðilinn LinkedIn. Stofnaðir voru gerviprófílar og var fólk jafnvel boðað í atvinnuviðtöl á netinu. Síðar voru upptökur úr þeim látnar í hendur fjölmiðils sem er málgagn Fidesz KDNP. Þar voru orð fólks úr viðtölunum tekin úr samhengi.
Þá var Black Cube sakað um að hafa hakkað Muhammadu Buhari, forseta Nígeríu, í aðdraganda forsetakosninga árið 2015. Tilgangurinn var að fá aðgang að heilsufarsgögnum og tölvupóstum forsetans. Buhari bar sigur úr býtum í kosningunum og sat á embættisstóli til ársins 2023. Forsvarsmenn Black Cube neituðu að hafa reynt að komast yfir tölvugögn Buharis.
Black Cube hefur einnig fyrri óbeina tengingu við Ísland í gegnum viðskiptamanninn Vincent Tchenguiz, sem handtekinn var í Bretlandi vegna meintra fjársvika í tengslum við fall Kaupþings árið 2011. Vincent var ásamt bróður sínum Robert Tchenguiz stór lántaki í Kaupþingi fyrir bankahrunið.
Tchenguiz er sagður hafa ráðið Black Cube til þess að kanna net leikenda sem hefðu leitt til falls bankans auk þess sem njósnafyrirtækið aðstoðaði hann við að afla gagna til þess að hrinda rannsókn á hendur honum.
Tchenguiz var síðar hreinsaður af öllum ásökunum.
Tchenguiz fór síðar í hart við Black Cube og neitaði að greiða reikning upp á hundruð þúsunda punda. Samið var um málalyktir áður en málið fór fyrir dómstóla.