Svíar og Finnar hvattir til að búa sig undir stríð

Frá Stokkhólmi í Svíþjóð.
Frá Stokkhólmi í Svíþjóð. Ljósmynd/Colourbox

Sænsk yfirvöld hófu að senda fimm milljónir bæklinga til landsmanna þar sem þeir voru hvattir til að búa sig undir möguleg stríðsátök. Þá hafa Finnar opnað sérstaka vefsíðu þar sem farið er yfir mikilvæg atriði komi til átaka. 

Svíar og Finnar létu af hlutleysi er þjóðirnar gengu í Atlantshafsbandalagið (NATO) í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu fyrir tveimur árum. 

Svíar og Finnar hafa miklar áhyggjur af stríðsátökunum í Úkraínu, …
Svíar og Finnar hafa miklar áhyggjur af stríðsátökunum í Úkraínu, en tvö og hálft ár er liðið frá því Rússar réðust inn í landið. AFP

Staða heimsmála tvísýn

Frá því stríðið hófst hafa sænsk yfirvöld hvatt landsmenn til að búa sig undir stríðsátök, bæði andlega og einnig út frá almennum viðbúnaði. Hafa yfirvöld bent máli sínu til stuðnings á stöðuna í nágrannaríkjunum. 

Bæklingurinn, sem er gefinn út af almannavörnum Svíþjóðar (MSB), ber yfirskriftina „Skapist neyðarástand eða ef stríð brýst út“. Þar má finna upplýsingar um það hvernig landsmenn eigi að búa sig undir neyðarástand á borð við styrjaldir, náttúruhamfarir eða tölvuárásir. 

Þeir hafa einnig áhyggjur af tölvuglæpum.
Þeir hafa einnig áhyggjur af tölvuglæpum. Ljósmynd/Colourbox

Fimmta útgáfa

Þetta er uppfærð útgáfa sem Svíar hafa alls gefið út fimm sinnum frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. 

Bæklingnum var síðast dreift árið 2018 og vakti það heimsathygli, því þá var það í fyrsta sinn frá árinu 1961, þegar kalda stríðið stóð sem hæst, sem sænsk yfirvöld dreifðu bæklingnum.

„Staða öryggismála er mjög alvarleg og við þurfum öll að styrkja okkur til að geta staðið frammi fyrir ýmiss konar ógnum og styrjöld,“ segir Mikael Frisell, framkvæmdastjóri MSB, í yfirlýsingu.

Þá er mikilvægt að eiga birgðir af mat og vatni.
Þá er mikilvægt að eiga birgðir af mat og vatni. Ljósmynd/Colourbox

Meiri áhersla á möguleg stríðsátök í nýjustu útgáfunni

Bæklingurinn er 32 blaðsíður og þar má finna einfaldar teikningar sem sýna þær ógnir sem steðja að Svíþjóð, m.a. hernaðarátök, náttúruhamfarir, hryðjuverk og tölvuárásir.

Þar er að finna ráðleggingar um allan viðbúnað, m.a. að eiga matarbirgðir, eins og dósamat og vatn.

Að sögn MSB er meiri áhersla á undirbúning fyrir stríð í hinni uppfærðu útgáfu.

Næstu tvær vikurnar mun bæklingurinn rata inn á 5,2 milljónir sænskra heimila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert