Hafa áhyggjur af útnefningu Gabbard

Trump og Tulsi Gabbard í ágúst síðastliðnum.
Trump og Tulsi Gabbard í ágúst síðastliðnum. AFP/Kamil Krzaczynski

Umdeildur fundur þingkonunnar fyrrverandi, Tulsi Gabbard, árið 2017 með sýrlenska leiðtoganum Bashar al-Assad og ummæli hennar um innrás Rússa í Úkraínu hafa fengið aukna athygli eftir að Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, útnefndi hana sem yfirmann njósnastofnana Bandaríkjanna á erlendri grundu.

Ef hún tekur við embætti forstjóra leyniþjónustustofnunarinnar DNI mun Gabbard hafa yfirumsjón með 18 bandarískum njósnastofnunum og starfa sem náinn ráðgjafi forsetans.

Tulsi Gabbard talar á kosningafundi Donalds Trumps.
Tulsi Gabbard talar á kosningafundi Donalds Trumps. AFP/Patrick T. Fallon

Lýsa yfir áhyggjum 

Fyrrverandi yfirmenn bandarískra öryggismála og þingmenn hafa lýst yfir áhyggjum vegna útnefningar Gabbard, sem er afar andvíg þátttöku Bandaríkjanna í stríðum erlendra ríkja og hafa gagnrýnendur sakað hana um að hafa sömu skoðanir og rússnesk stjórnvöld. Slíkt gæti haft slæm áhrif á samstarf leyniþjónusta, að því er BBC greindi frá. 

Lewis Luken, fyrrverandi erindreki sem starfaði sem næstráðandi í bandaríska sendiráðinu í London, segir að „vafasöm dómgreind“ Gabbard geti gefið samherjum Bandaríkjanna „ástæðu til að setja spurningamerki við hversu öruggt er að deila leynilegum upplýsingum með Bandaríkjunum“.

Gabbard, sem gekk nýlega til liðs við Repúblikanaflokkinn, hefur áður sagt að þeir sem efast um hana séu „stríðsæsingamenn“ sem geri lítið úr allri gagnrýni á kerfið í Washington.

Trump og Gabbard á samsettri mynd.
Trump og Gabbard á samsettri mynd. AFP/Soel Loeb og Kamil Krzaczynski

Efaðist um efnavopnaárás

Gabbard ferðaðist árið 2017 í „staðreyndaleit” til Sýrlands sem þingkona. Hún vakti sérstaka hneykslan þegar hún lýsti yfir efasemdum um mat bandarísku leyniþjónustunnar að hersveitir Assads hefðu beitt efnavopnum gegn almennum borgunum.

Eftir innrás Rússa í Úkraínu sagði Gabbard að hægt hefði verið að koma í veg fyrir stríðið ef ríkisstjórn Joes Bidens Bandaríkjaforseta og NATO „hefðu einfaldlega viðurkennt lögmætar öryggisáhyggjur Rússa“ um að Úkraína yrði á endanum hluti af bandalaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert