„Hún er jafnvel fegurri en áður“: Notre Dame opnuð eftir endurbætur

Forseti Frakklands heimsótti kirkjuna ásamt fleirum.
Forseti Frakklands heimsótti kirkjuna ásamt fleirum. AFP

Notre Dame-kirkjan í París verður opnuð almenningi um næstu helgi eftir endurbætur, en rúm fimm ár eru síðan kviknaði í kirkjunni og hún stóð í ljósum logum. Þak hinnar 850 ára gömlu kirkju og turnspíra gjöreyðilögðust í brunanum.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, fékk að fara inn í kirkjuna í dag og líta á endurbæturnar og var heimsókninni sjónvarpað í beinni útsendingu.

„Hún er jafnvel fegurri en áður, ljósu steinarnir hafa endurheimt ljóma sinn og einnig litirnir í kapellunni,“ sagði Macron við blaðamenn eftir heimsóknina. En þeir hlutar kirkjunnar sem brunnu voru endurbyggðir í upprunalegri mynd.

Slökkviliðsmönnum tókst að bjarga stærstum hluta burðarvirkis kirkjunnar á sínum tíma, eftir að eldur kviknaði í þaki kirkjunnar í apríl 2019. Þá tókst að bjarga ýmsum menningarverðmætum. 

AFP

Vildi klára endurbætur fyrir Ólympíuleikana

Macron lét hafa eftir sér skömmu eftir brunann að stefnt væri að því að endurbótum yrði lokið fyrir Ólympíuleikana í París sem fóru fram í sumar. Franskir embættismenn töldu það hins vegar óraunhæft að ljúka verkinu á svo skömmum tíma.

Nú er staðan hins vegar þannig að kirkjan verður opnuð um næstu helgi fyrir útvalda gesti. Að minnsta kosti 2.000 manns sem lögðu pening í endurbæturnar hafa fengið boð á opnuna, ásamt leiðtogum útvalinna ríkja.

Um 250 fyrirtæki og hundruð sérfræðinga komu að endurbótum á kirkjunni en þær hafa kostað um 700 milljónir evra og eru fjármagnaðar af milljarðamæringum, stórfyrirtækjum og stjórnvöldum víða um heim.

Frá eldsvoðanum 15. apríl 2022.
Frá eldsvoðanum 15. apríl 2022. AFP

Virtu reykingabann að vettugi

Við rannsókn á upptökum eldsins komu margar kenningar fram, meðal annars að kviknað hefði í út frá sígarettuglóð eða rafmagni. Niðurstaða rannsakenda var að ekki léki grunur á glæpsamlegu athæfi.

Framkvæmdir stóðu yfir við kirkjuna þegar eldurinn kom upp og viðurkenndi verktakinn sem sá um framkvæmdina að verkamenn sem unnu að viðgerðunum virtu reykingabann að vettugi. Hann neitaði því þó að tengsl væru á milli þess og brunans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert