Samþykktu umdeilt frumvarp um dánaraðstoð

Þingmenn greiddu atkvæði eftir fimm klukkustunda umræður í þingsal.
Þingmenn greiddu atkvæði eftir fimm klukkustunda umræður í þingsal. AFP/Pru

Þingmenn neðri deildar breska þingsins samþykktu í dag frumvarp sem gerir fólki með banvæna sjúkdóma kleift að leita sér dánaraðstoðar í Englandi og Wales. 

Hart var tekist á um frumvarpið á þinginu í dag og var atkvæðagreiðsla haldin eftir fimm klukkustunda umræðu í þingsal.

Atkvæðin féllu þannig að 330 greiddu með frumvarpinu og 275 á móti. Frumvarpið er ekki komið í lög en það mun næst fara til frekari meðferðar þingsins og í kjölfarið verður tekist á um það í lávarðadeildinni. 

Strangari reglur en annars staðar í Evrópu

Dánaraðstoð er leyfð í nokkrum öðrum Evrópuríkjum en frumvarpið sem var samþykkt í Bretlandi í dag kveður á um strangari reglur en þekkjast annars staðar í álfunni. 

Þeir sem mega nýta sér dánaraðstoðina eru aðeins þeir einstaklingar sem er ekki hugað líf lengur en sex mánuði.

Þá þurfa sjúklingarnir að geta tekið inn banvæna lyfið sjálfir sem og að tveir læknar og dómari þurfa að undirrita beiðni sjúklingsins. 

Frumvarp fellt 2015

Málið hefur verið mjög umdeilt í Bretlandi en frumvarpið var síðast til umræðu á breska þinginu árið 2015. Því var þá hafnað í atkvæðagreiðslu. 

Síðustu ár hafa skoðanakannanir í Bretlandi bent til þess að almenningur þar í landi sé orðinn hlynntari dánaraðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert