Forstjóri stórfyrirtækis skotinn til bana á Manhattan

Frá Manhattan. Árásin var gerð á sjöunda tímanum í morgun …
Frá Manhattan. Árásin var gerð á sjöunda tímanum í morgun að staðartíma. AFP

Forstjóri bandaríska stórfyrirtækisins UnitedHealthcare hefur verið skotinn til bana í miðborg Manhattan-eyju í New York.

Í lögregluskýrslu segir að maður hafi verið skotinn í bringuna rétt eftir kl. 6.45 í morgun að staðartíma, eða kl. 11.45 að íslenskum tíma, fyrir utan hús númer 1335 við Sixth Avenue, eða sjötta breiðstræti borgarinnar.

Heimildir dagblaðsins New York Times herma að maðurinn hafi verið Brian Thompson, forstjóri UnitedHealthcare, sem var fimmtugur að aldri.

Þá greinir blaðið frá því að við númer 1335 standi hótelið New York Hilton Midtown.

Leita enn að byssumanninum

Lögregla er sögð leita enn að byssumanninum, sem mun hafa flúið austur eftir breiðstrætinu. Var hann klæddur í kremlitaðan jakka, með svarta grímu fyrir vitum og með gráan bakpoka á herðum.

Telur lögreglan að árásin hafi sérstaklega beinst að forstjóranum.

Thompson varð forstjóri UnitedHealthcare, sem er deild innan UnitedHealth Group, í apríl árið 2021. Hefur hann búið í Minnesota.

UnitedHealth Group, sem er einn stærsti seljandi sjúkratrygginga í Bandaríkjunum og útvegar einnig endurgreiðslur vegna lyfjakostnaðar, er sömuleiðis eitt stærsta fyrirtæki Bandaríkjanna.

Skilaði það 372 milljörðum bandaríkjadala í hagnað á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert