Óskar eftir að ákæran í Georgíu verði felld niður

Trump var ákærður fyrir að hafa reynt að hnekkja niðurstöðu …
Trump var ákærður fyrir að hafa reynt að hnekkja niðurstöðu forsetakosninganna árið 2020. AFP/Brandon Bell

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur óskað eftir því að ákæra gegn honum í Georgíuríki verði felld niður. Ber hann fyrir sig þau rök að hann sé verðandi forseti í landinu. 

Í ágúst á síðasta ári var Trump ákærður vegna ólögmætra tilrauna til þess að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna árið 2020 þegar Joe Biden bar sigur úr býtum. 

Ásamt Trump voru 18 aðrir ákærðir í málinu, þar á meðal Rudy Giuliani, fyrrverandi lögmaður Trumps, og Mark Meadows, starfsmannastjóri Trumps í Hvíta húsinu. 

„Algjörlega friðhelgur“

Í bréfi sem Steven Sadow, lögmaður Trumps, sendi á dómstóla í dag segir að „forseti eigi að vera algjörlega friðhelgur gegn ákærum eða hvers kyns refsingu“.

Þá vitnaði hann í stefnu dómsmálaráðuneytisins um að ekki skuli ákæra eða sækja sitjandi forseta til saka. 

Sakfelldur í maí

Í maí var Trump dæmdur fyrir að falsa viðskiptaskjöl og hylma yfir peningagreiðslur til klámmyndastjörnunnar Stormy Daniels í aðdraganda forsetakosninganna 2016. 

Ákveðið hefur verið að fresta uppkvaðningu refsingar um ókomna tíð og er því talið ólíklegt að Trump muni sæta refsingu fyrir brotin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert