Stormurinn Darragh herjar á Bretland

Búist er við miklu regni vegna stormsins yfir helgina.
Búist er við miklu regni vegna stormsins yfir helgina. AFP

Milljónum íbúa í Wales og Suðvestur-Englandi hefur verið sagt að halda sig heima vegna stormsins Darragh sem er nú sagður lífshættulegur.

Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Vindhviður stormsins ná allt að 40 m/s og hefur verið gefin út rauð viðvörun sem nær yfir vestur- og suðurhluta Wales.

Stjórnvöld sendu neyðarviðvörun

Að sögn bresku veðurstofunnar mun stormurinn líklega valda verulegum truflunum og hefur verið greint frá því að tugir þúsunda heimila séu án rafmagns í Suður-Wales og vesturhluta Englands.

Þá fengu um þrjár milljónir manna neyðarviðvörun í farsíma sína í gærkvöldi frá stjórnvöldum þar sem stormurinn var sagður ógna lífi fólks og gefin voru ráð um hvernig ætti að bregðast við honum.

Var fólki meðal annars sagt að safna rafhlöðum og öðrum nauðsynlegum hlutum og að hlaða síma sína ef til þess skyldi koma að það yrði rafmagnslaust.

Um þrjár milljónir manna fengu neyðaviðvörun í farsíma sína frá …
Um þrjár milljónir manna fengu neyðaviðvörun í farsíma sína frá stjórnvöldum. AFP

Meira en 22.000 húsnæði án rafmagns

Voru skilaboðin í gærkvöldi mesta notkun breska viðvörunarkerfisins til þessa og gáfu frá sér hátt hljóð, líkt sírenum, þegar þau bárust í farsímana.

Greint hefur verið frá því að meira en 22.000 húsnæði hafi verið án rafmagns klukkan 6 í morgun að staðartíma í Wales og að rafmagnsleysi hefði haft áhrif á meira en 12.000 húsnæði í suðvesturhluta Englands og Midlands.

Aukin hætta á flóðum

Fjölda flugferða víðsvegar um Bretland hefur verið aflýst vegna stormsins auk annarra viðburða. 

Þá er búist við því að mikið regn muni fylgja storminum yfir helgina og eru 120 flóðviðvaranir í Englandi og 55 í Wales eins og er. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert