Fjórir unglingar hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald að beiðni sænsku lögreglunnar, grunaðir um aðild að skotárás í verslunarmiðstöð í Kungens kurva í Huddinge, skammt suður af Stokkhólmi, 18. nóvember.
Maður, sem staddur var á veitingastað í verslunarmiðstöðinni, varð fyrir nokkrum skotum og hlaut af töluverð sár. Sá, sem grunaður er um að hafa hleypt skotunum af, er piltur undir sakhæfisaldri, sem í Svíþjóð er fimmtán ár, og hafði sá nýlega strokið af meðferðarheimili. Var hann handtekinn samdægurs.
Þeir fjórir sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald eru taldir hafa veitt árásarmanninum aðstoð af ýmsu tagi en í hverju hún fólst vill Lukas Tigerstrand saksóknari ekki tjá sig við sænska ríkisútvarpið SVT sem fjallar um málið. Eru þeir grunaðir um hlutdeild í tilraun til manndráps, þar af þrír þeirra um að fá barn undir lögaldri til samverknaðar við refsivert brot.
SVT-II (umfjöllun daginn eftir árásina)