Biden setur embættismet í náðunum

Enginn Bandaríkjaforseti hefur náðað fleiri fanga en Joe Biden gerði …
Enginn Bandaríkjaforseti hefur náðað fleiri fanga en Joe Biden gerði í dag. AFP/Samuel Corum

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur stytt refsidóma 1.500 fanga auk þess að náða 39 sem hlotið hafa dóma fyrir brot önnur en ofbeldisbrot og er þar um met í tilslökunum Bandaríkjaforseta á þessum vettvangi að ræða þar sem enginn forvera Bidens hefur miskunnað sig yfir annan eins fjölda fanga einn og sama daginn.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá Hvíta húsinu í dag.

Ekki sat þó allur hópurinn í fangelsi þar sem margir fanganna voru í heimaafplánun sem þeim var heimilað að færa sig yfir í meðan á heimsfaraldri kórónuveiru stóð og sneru svo aldrei aftur. Hafa sumir repúblikanar þrýst mjög á lagasetningu sem kæmi undanþáguföngunum í fangelsi á nýjan leik.

Umdeild sonarnáðun

Tilkynning Hvíta hússins um náðanirnar er gerð heyrum kunn hálfum mánuði eftir að Biden náðaði sinn eigin son, Hunter Biden, sem á sínum tíma var dæmdur fyrir ólöglega skotvopnaeign  og skattsvik, og vakti náðunin hvort tveggja umtal og gremju.

Í tilkynningu Hvíta hússins í dag kemur fram að með aðgerðum Bidens nú, það er að segja náðununum sem nú var verið að greina frá, vaki fyrir forsetanum að sameina fjölskyldur, styrkja samfélög og koma fólki á ný út í þjóðfélagið.

NY Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert