Umboðsmaður gagnrýnir fangelsi harðlega

Fangelsið í Ålesund þykir engan veginn boðlegt til síns brúks …
Fangelsið í Ålesund þykir engan veginn boðlegt til síns brúks en í þessu húsi, sem er byggt 1864, eru rými fyrir 27 hámarksöryggisgæslufanga. Ljósmynd/Wikipedia.org/GangeRolf

„Það er alvarlegt mál að fangar í fangelsinu í Ålesund séu hafðir einir í klefum sínum stóran hluta sólarhringsins án samneytis við aðra,“ segir Hanne Harlem, umboðsmaður Stórþingsins í Noregi, eða sivilombud eins og staðan kallast þar, um aðstæður 24 fanga hámarksöryggisfangelsis þar í bænum sem er í húsi byggðu árið 1864 og þykir aðbúnaði þar mjög ábótavant.

Bendir umboðsmaður aukinheldur á að fangelsisgarðurinn sé örsmár malbikaður flötur sem margra metra háir múrveggir umlykja og þar sé ekki boðleg aðstaða fyrir neins konar hreyfingu eða líkamlegar æfingar sem fangarnir eiga heimtingu á.

Ómanneskjuleg og niðurlægjandi meðferð

Samkvæmt skýrslu umboðsmanns um aðbúnaðinn í tyftunarhúsinu sitja margir fanganna læstir inni í klefum sínum 18 klukkustundir virka daga og 19 um helgar og aðeins átta þeirra býðst að stunda vinnu eða skóla allan daginn.

„Svo mikil einangrun, um óákveðinn tíma og án þess að metið sé í tilviki hvers og eins, veldur hættu á því að fangarnir sæti ómanneskjulegri eða niðurlægjandi meðferð,“ segir umboðsmaður við norska ríkisútvarpið NRK og bætir því við að fangelsisgarðurinn, útivistarsvæðið, geri ekkert annað en að magna upp þá tilfinningu að sæta innilokun allan sólarhringinn.

Þá gagnrýnir umboðsmaður einnig forvarnastarf fangelsisins gegn sjálfsvígum fanga og sjálfsskaða þeirra. Vissulega hafi fangelsið verklagsreglur á þessum vettvangi, en umboðsmaður fái ekki séð að stjórnendur þess vinni kerfisbundið að því að fyrirbyggja framangreint.

Lögð á ráðin um ný fangelsi

Um árabil hafa pólitískir fulltrúar í fylkinu Mæri og Raumsdal, þar sem Ålesund er staðsett, háð baráttu fyrir nýju fangelsi í stað hátt í 200 ára gamallar byggingar sem uppfyllir ekki skilyrði um lágmarksaðbúnað starfseminnar.

Gerir fjárhagsáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2025 ráð fyrir að lögð verði á ráðin um byggingu nýrra fangelsa í Ålesund og Mosjøen og gaf Emilie Enger Mehl, ráðherra dómsmála og viðbúnaðar, það út í fréttatilkynningu í október að núverandi fangelsi á þessum stöðum væru dæmi um fangelsi þar sem mikilla breytinga væri þörf til að uppfylla skilyrði um forsvarlega refsivörslu. Því hygðist ríkisstjórnin gera að því gangskör að meta þörfina fyrir ný fangelsi þar.

NRK

NRK-II („Skil ekki að fólk betrist við afplánun hér“)

NRK-III (fangelsið sætti rannsókn vegna sjálfsvígstilraunar)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert