Felmtursfullir vegna drónaflugs

Drónar sem sést hafa síðustu vikur yfir New Jersey í …
Drónar sem sést hafa síðustu vikur yfir New Jersey í Bandaríkjunum hafa vakið nokkurn ugg með almenningi. Hafa drónarnir sést í grennd við hernaðarmannvirki, golfvöll Donalds Trumps og eru jafnvel sagðir svífa um í skjóli nætur. Dróninn á myndinni er þó ekki einn af huldudrónunum í New Jersey. AFP

Phil Murphy, ríkisstjóri í New Jersey í Bandaríkjunum, fullvissar íbúa ríkisins um að þeim sé ástæðulaust að fyllast beyg yfir tugum dróna sem sést hafa þar á sveimi undanfarnar vikur, þar á meðal í grennd við hergagnaverksmiðju.

Hefur alríkislögreglan FBI jafnvel tekið að rannsaka ótal tilkynningar um drónaflug að nóttu sem tóku að berast í nóvember og báðu fulltrúar hennar almenning jafnvel að hafa augun hjá sér og ekki fækkaði tilkynningunum við það.

Gæti verið sami dróninn

Murphy ríkisstjóri sagði í ávarpi í Princeton í vikunni að á sunnudaginn hefðu 49 tilkynningar um drónaflug borist, flestar í Hunterdon-sýslu. Sló hann þó þann varnagla að þar á meðal væru einnig tilkynningar um eitthvað sem aðeins hugsanlega hefði verið dróni auk þess sem líklegt teldist að margar tilkynningar bærust um sama drónann.

„Þetta er eitthvað sem við tökum af alvöru og ég álasa fólki ekki fyrir að ókyrrast,“ sagði ríkisstjórinn en kvað almenning þó ekki þurfa að óttast.

Óljóst er hver eða hverjir standa á bak við þessa torkennilegu flugumferð en bandarískir fjölmiðlar greina frá því að embættismenn, hvort tveggja einstakra ríkja sem á alríkisvettvangi, hafi ítrekað sagt að flugið feli ekki í sér neina almannahættu.

Sagðir stærri en hefðbundnir drónar

Drónar eru lögleg tæki í New Jersey, hvort tveggja til tómstundaflugs og í atvinnuskyni, en um þá gilda þó reglur, svo sem er að umferð flugvéla lúta, og þurfa notendur dróna að útvega sér leyfi bandarísku flugmálastofnunarinnar FAA til að fá að stjórna slíku tæki. Þeir drónar, sem sést hafa á flugi yfir New Jersey upp á síðkastið og vakið slíkan úlfaþyt, eru þó sagðir stærri en hinn dæmigerði tómstundadróni.

Vakti það því eðlilega spurningar og jafnvel áhyggjur þegar ítrekað sást til drónanna í grennd við Picatinny Arsenal, rannsóknarstöð og verksmiðju Bandaríkjahers auk þess að sveima yfir golfvelli Donalds Trumps verðandi forseta í Bedminster.

Hefur alríkislögreglan biðlað til almennings að senda henni allar myndir og myndskeið sem fólk kynni að hafa í fórum sér af drónunum dularfullu.

AP News

ABC7

Fox News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert