Frægir bræður ákærðir fyrir mansal

Mennirnir eru sagðir hafa brotið á tugum kvenna. Mynd úr …
Mennirnir eru sagðir hafa brotið á tugum kvenna. Mynd úr safni. Ljósmynd/Colourbox

Þrír bræður hafa verið ákærðir fyrir mansal í Bandaríkjunum. Eru mennirnir sakaðir um að hafa byrlað tugum kvenna ólyfjan, brotið á þeim og nauðgað, yfir tímabil sem spannar meira en áratug.

Tveir bræðranna, Tal og Oren Alexander, eru frægir fasteignasalar sem eru þekktir fyrir að selja lúxusfasteignir í New York og Miami. Þeir hafa meðal annars starfað fyrir Douglas Ellinman og selt fasteignir stórstjarna á borð við Liam Gallagher, Lindsay Lohan, Kim Kardashian og Kanye West.

Þriðji bróðirinn heitir Alon Alexander. 

BBC greinir frá.

Svívirðileg háttsemi

Saksóknari segir bræðurna hafa nýtt sér auð sinn til að misnota konur. 

Lögmaður Oren Alexander sagði skjólstæðing sinn hafna ásökunum. Lögmaður Tal Alexander vildi ekki tjá sig við BBC og lögmaður Alon Alexander svaraði ekki.

„Lögregluyfirvöld hafa rætt við tuga kvenna sem báru vitni um að hafa verið nauðgað eða orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi Alexander-bræðranna,“ sagði Damian Williams saksóknari á blaðamannafundi á Manhattan.

„Þessi meinta háttsemi var svívirðileg.“

Buðu meintum brotaþolum gjafir

Að því er fram kemur í ákærunni buðu mennirnir konunum á skemmtanir og lofuðu þeim lúxus ferðalögum og upplifunum til að lokka þær í burtu á staði þar sem meintu árásirnar áttu sér stað. Eru þeir sagðir hafa brotið á konunum bæði í Bandaríkjunum og erlendis.

Þá eru þeir einnig sagðir hafa útvegað fíkniefni og lyf til að gefa konunum. Stundum hafi þeir sett lyfin í drykki þeirra að þeim óafvitandi.

Eftir að hafa misnotað konurnar eru þeir sagðir hafa boðið brotaþolunum miða á tónleika eða aðrar munaðarvörur.

Bræðurnir þrír eru ákærðir fyrir að hafa átt í samsæri um mansal og fyrir að hafa beitt þvingunum og svikum við mansal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert