Bandarískur karlmaður sem sat í fangelsi í Sýrlandi eftir að hafa komið fótgangandi til landsins lýsir því að hafa verið frelsaður af mönnum vopnuðum hamri þegar uppreisnarmenn í landinu steyptu stjórn Bashar al-Assads af stóli.
BBC greinir frá.
Maðurinn heitir Travis Timmerman og hefur hans verið leitað síðan í maí. Hann var handtekinn í Sýrlandi fyrir sjö mánuðum.
Timmerman lýsir því að daginn eftir að uppreisnarmenn náðu völdum í Damaskus hafi tveir menn vopnaðir hamri brotið upp dyrnar á klefa hans hans og frelsað hann.
Íbúar í nágrenni við höfuðborgina Damaskus fundu Timmerman eftir að hann losnaði úr fangelsinu.
Hann yfirgaf fangelsið ásamt stórum hópi fólks og stefndi að því að fara til Jórdaníu. Hann segist hafa upplifað mikinn ótta í nokkur skipti eftir að hann yfirgaf fangelsið en hafði þó mestar áhyggjur af því að finna sér svefnstað.
Heimamenn tóku Timmerman hins vegar opnum örmum og gáfu honum mat og veittu honum aðstoð.
Fangelsi Assad-stjórnarinnar eru talin hafa verið harðneskjuleg og eru til dæmi um fólk sem hafði ekki séð sólina árum saman.
Timmerman virðist hins vegar hafa haft það gott í fangelsinu en hann lýsti því í samtali við CBS-fréttastofuna að honum liði vel eftir dvölina. Hann hafi fengið mat og vatn og fengið að hringja í fjölskyldu sína og vini á meðan dvölinni stóð.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að stjórnvöld væru að vinna í því að koma Timmerman heim.