Hryðjuverkasamtökin Hamas eru tilbúin að gefa Ísraelsmönnum undir fótinn er varðar tvær lykilforsendur Ísraelsmanna fyrir vopnahléi og eru vonir nú bundnar við að það gæti verið innan seilingar. Tillaga um vopnahlé, sem egypsk stjórnvöld lögðu til, er á borðinu.
Wall Street Journal greinir frá og hefur eftir arabískum heimildarmönnum sem vinna í viðræðunum.
Hamas eru tilbúin að leyfa ísraelskum hermönnum að vera á Gasa tímabundið í kjölfar vopnahlés og þá eru samtökin einnig búin að gefa frá sér lista af gíslum – þar með talið bandarískum ríkisborgurum – sem samtökin myndu láta lausa ef samið yrði um vopnahlé.
Hamas-samtökin höfðu lengi staðið gegn þessum skilyrðum Ísraelsmanna en eftir að bandamaður þeirra, Hisbollah, samþykkti vopnahlé í Líbanon hefur Hamas opnað á þennan möguleika.
Vopnahléið í Líbanon gerði Hamas-samtökin, sem þegar voru veik fyrir árásum Ísraela á leiðtoga sína og vígamenn, einangruð í baráttu sinni gegn Ísrael.
Stjórnvöld í Egyptalandi lögðu fram tillöguna og bandarísk stjórnvöld styðja hana. Stjórnvöld í Ísrael staðfestu þetta ekki en Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sagði á mánudaginn að það væru ákveðnar vendingar í gangi í viðræðum um vopnahlé.
Framvindan í viðræðunum kemur í kjölfar þess að egypsk sendinefnd heimsótti stjórnvöld í Ísrael í síðasta mánuði og í kjölfar þess að Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, sagði að það yrði Hamas dýrkeypt ef gíslarnir yrðu ekki látnir lausir áður en hann tæki við embætti forseta í janúar.
Í nýjustu tillögunni er lagt til 60 daga vopnahlé þar sem Hamas myndi láta lausa 30 gísla. Í staðinn myndu Ísraelar frelsa palestínska fanga og hleypa enn meiri mannúðaraðstoð inn á Gasa.
Samningaviðræðurnar tóku stakkaskiptum í vikunni en ísraelsk sendinefnd fór til Egyptalands á þriðjudag, nokkrum dögum eftir að ráðamenn Hamas-samtakanna voru þar.
Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, er væntanlegur til Ísraels, Egyptalands og Katar í vikunni til að reyna að ná samningum í gegn, að sögn sáttasemjara í viðræðunum.
Heimildarmenn Wall Street Journal vara samt við því að Hamas geti hætt við að semja eins og áður í stríðinu.
„Fangaskiptasamningur krefst þess að báðir aðilar taki þátt í honum og því verður óvinurinn að taka pólitíska ákvörðun um að ná samkomulagi,“ sagði Hamas í yfirlýsingu til Wall Street Journal.