Harmleikur í Noregi

Kona var myrt í Gjerdrum í Noregi í nótt auk …
Kona var myrt í Gjerdrum í Noregi í nótt auk þess sem gerð var tilraun til að myrða barn og þurfti lögregla að veita því fyrstu hjálp við komu á vettvang. Maður er í haldi lögreglu vegna málsins. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Íbúar sveitarfélagsins Gjerdrum í Noregi, norðaustur af höfuðborginni Ósló, eru slegnir óhug eftir harmleik sem þar varð í nótt þegar kona á fertugsaldri var myrt þar á heimili sínu auk þess sem barn er alvarlega skaðað eftir að gerð var tilraun til að myrða það einnig.

Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið handtekinn og liggur nú undir grun um manndráp og tilraun til manndráps en það var hann sjálfur sem gerði lögreglu aðvart. Að sögn lögreglu eru fjölskyldutengsl milli fólksins.

Að sögn Ketil Lund, sem stýrir aðgerðum lögreglu á staðnum, þurftu lögregluþjónar sem fyrstir komu á vettvang að veita barninu fyrstu hjálp til að halda í því lífinu áður en það var flutt með hraði á sjúkrahús þar sem það liggur nú þungt haldið.

„Snertir okkur djúpt“

Áfallahjálparteymi sveitarfélagsins hefur verið virkjað og verður samkomuhús Gjerdrum opið öllum sem á þurfa að halda í dag, að sögn Karl-Arne Johannessen bæjarstjóra.

„Þetta er skelfilegur harmleikur sem snertir okkur djúpt,“ segir Johannessen við norska ríkisútvarpið NRK. „Hugur okkar er hjá fjölskyldunni og nánustu ættingjum. Við þekkjum það af reynslunni að þegar harmur er kveðinn að okkur stöndum við þétt saman og styðjum hvert annað,“ segir bæjarstjóri enn fremur og vísar til þess eru tíu íbúar sveitarfélagsins létu lífið í jarðfallinu í Ask 30. desember 2020.

Hilde Mo, sem skipuð hefur verið verjandi grunaða, kveðst ekki hafa hitt skjólstæðing sinn enn þá. Hann sé enn sem komið er á heilsugæslustöð bæjarins en verjandinn segir hann munu samþykkja að lögregla yfirheyri hann.

Annette Rygg, sem skipuð hefur verið réttargæslulögmaður barnsins, segist ekki enn geta tjáð sig um málið.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert