Kínverjar gera sig digra við Taívan

Maður í áhöfn taívansks varðskips fylgist með kínversku varðskipi á …
Maður í áhöfn taívansks varðskips fylgist með kínversku varðskipi á skjá sínum í byrjun vikunnar. Fjöldi kínverskra her- og varðskipa hefur verið á ferð skammt undan Taívan á stærstu heræfingu Kínverja um árabil. AFP/Taívanska strandgæslan

Sextán kínversk herskip hafa verið sjáanleg á siglingu í nánd Taívan síðasta sólarhringinn auk 34 flugvéla sem taka þátt í stórri heræfingu Kínverja. Frá þessu greinir varnarmálaráðuneyti Taívans, en engin nýlunda er að eyríkið sæti yfirgangi frá nágrannaríkinu svo sem glöggt mátti sjá þegar taívanski forsetinn Lai Ching-te heimsótti Bandaríkin á nýlegu ferðalagi sínu.

Um það bil 90 herskip hafa tekið þátt í heræfingunni, sem er sú stærsta um árabil af hálfu Kínverja að sögn taívanskra yfirvalda. Æfa Kínverjar meðal annars samhæfðar árásir á skip óvinaherja auk lokana á siglingaleiðum.

Skilaboð í þögn Kínverja

Kínverjar hafa ekki gefið út neina tilkynningu um heræfinguna auk þess sem talskona kínverska utanríkisráðuneytisins vildi hvorki staðfesta það við AFP-fréttastofuna né neita því að æfingin stæði yfir.

Í þeim viðbrögðum segir James Char, sérfræðingur í kínverskum hernaði við Nanyang-tækniháskólann í Singapúr, ákveðin skilaboð felast. Segir hann Kínverja líta svo á að Taívan tilheyri Kína og þar með hafsvæðið milli landanna. Heræfingin sé þar með haldin innan vébanda kínverska ríkisins og þar með sé engin ástæða til að tilkynna öðrum ríkjum um hana.

Mesti fjöldi síðan í maí

„Þetta er önnur aðferð meginlandsins til að þröngva stöðu sinni upp á aðra,“ segir Char við AFP án þess að útiloka að Kínverjar játuðu æfinguna hugsanlega á sig síðar.

Nærvera kínverskra herskipa og -flugvéla í grennd við Taívan hefur orðið æ sýnilegri undanfarin ár auk þess sem Kínverjar fyrtast við hvers kyns viðurkenningu annarra ríkja heimsins á sjálfstæði Taívans.

Annar eins fjöldi kínverskra herskipa og nú hefur ekki verið sýnilegur Taívönum síðan 25. maí í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert