Samþykkt að rétta yfir 10 ára börnum sem fullorðnum

Vonast er til að lögin muni hafa ákveðinn fælingarmátt.
Vonast er til að lögin muni hafa ákveðinn fælingarmátt. Ljósmynd/Colourbox

Lög voru samþykkt í Queensland í Ástralíu í dag sem heimila að réttað sé yfir börnum frá tíu ára aldri, eins og fullorðnum, ef þau gerast sek um alvarleg afbrot eins og morð, alvarlegar líkamsárásir eða innbrot. BBC greinir frá.

Samkvæmt ríkisstjórninni er ástæðan fyrir lagabreytingunni mikil reiði almennings vegna fjölda afbrota sem framin eru af ungum brotamönnum, sem ekki þurfa að svara til saka. Vonir eru bundnar við að breytingin hafi fælingarmátt.

Sérfræðingar hafa þó bent á að margar rannsóknir sýni að harðari refsingar dragi ekki úr fjölda ungra afbrotamanna, heldur hafi frekar öfug áhrif.

Segja gengið gegn lögum um mannréttindi barna

Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar gagnrýnt lagabreytinguna og segja að með henni sé gengið gegn alþjóðalögum um mannréttindi barna.

Frjálslyndi þjóðarflokkurinn (LNP) sem sigraði kosningar í október síðastliðnum, gerði það að baráttumáli í kosningarbaráttunni að breyta lögum með þessum hætti. Og taldi að réttur fórnarlamba væri ávallt ríkari en réttur brotamanna.

„Þessi lög eru fyrir alla íbúa Queensland sem einhvern tíma hafa upplifað sig óörugga eða verið fórnarlömb ungra brotamanna í ríkinu,“ sagði David Crisafulli forsætisráðherra eftir að lögin voru samþykkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert