Lögreglunni í New York bárust yfir 400 ábendingar á meðan leitað var að byssumanninum sem varð Brian Thompson, forstjóra United Healthcare (UH), að bana í síðustu viku.
Aðeins 30 þessara ábendinga nýttust lögreglunni en það var ekki fyrr en starfsmaður á McDonald's í Altoona í Pennsylvaníu tilkynnti um mann sem var líkur þeim sem framdi morðið.
Alríkislögreglan í Bandaríkjunum (FBI) hafði tilkynnt um að sá sem myndi koma með ábendingu sem myndi koma lögreglunni á spor hins grunaða gæti fengið allt að 60 þúsund bandaríkjadali í verðlaunafé eða sem nemur rúmlega átta milljónum íslenskra króna.
Luigi Mangione, 26 ára gamall karlmaður, var handtekinn í Pennsylvaníu eftir ábendinguna frá McDonald's-starfsmanninum. Á honum fannst skammbyssa með hljóðdeyfi en Thompson var skotinn til bana með slíku vopni.
Þá er hann sagður hafa verið með fölsuð skilríki í fórum sínum ásamt eins konar stefnuyfirlýsingu þar sem hann gagnrýndi sjúkratryggingaiðnaðinn í Bandaríkjunum.
Þar sem lögreglunni bárust nokkrar ábendingar sem gáfu upplýsingar um ferðir Mangiones er ekki ljóst hver fær verðlaunaféð en í verðlaunakerfi alríkislögreglunnar er gerð krafa um að ábending eða upplýsingar leiði til handtöku og sakfellingar.
Joseph Kenny, lögreglustjórinn í New York, sagði í samtali við AP-fréttaveituna að farið verði yfir þær ábendingar sem lögreglunni bárust og þær metnar út frá því hver þeirra ætti stærstan þátt í að leysa málið þegar tekin verður ákvörðun um hver fær verðlaunaféð.
Langur tími gæti liðið þar til einhver fær verðlaunafé frá alríkislögreglunni þar sem það getur verið allt að ár þangað til að réttarhöld yfir Mangione hefjast.