Í það minnsta sex manns fórust í eldsvoða á einkasjúkrahúsi í suðurhluta Indlands og á annan tug manna eru slasaðir.
Eldurinn kviknaði seint í gærkvöldi í Tamil Nadu-fylki í suðurhluta landsins og er enn verið að rannsaka upptök eldsvoðans. Talið er að eldurinn hafi kviknað í móttöku sjúkrahússins á jarðhæð og breiddist hann hratt út á aðrar hæðir í byggingunni.
Öll sex fórnarlömbin fundust meðvitundarlaus í lyftu á sjúkrahúsinu í borginni Dindigul að því er Press Trust of Indina-fréttastofan greinir frá.
Ekki er langt síðan tíu nýburar létust þegar eldur kviknaði í sjúkrahúsi í norðurhluta Uttar Pradesh-fylkis og fyrr á þessu ári létust sex ungabörn í eldsvoða á barnaspítala í Nýju Delí.