„Ég á 10-15 vini sem eru búnir að missa allt“

Dröfn Ösp Snorradóttir Rozas segir marga eiga um sárt að …
Dröfn Ösp Snorradóttir Rozas segir marga eiga um sárt að binda Í Los Angeles. Samsett mynd

„Þú horfir í augun á fólki hvort sem það er við bensínstöð eða öryggishlið eða annað og fólk spyr hvort annað hvort allt sé í lagi, hvort fjölskyldan sé örugg og annað slíkt. Því er mikill samhugur í fólki en því miður þá eru margir sem hafa illt í huga og vilja notfæra sér ástandið,“ segir Dröfn Ösp Snorradóttir-Rozas um ástandið í Los Angeles í dag.

Miklir gróðureldar geisa á fjórum stöðum í og við borgina. Grunur leikur á því að sumir eldanna séu af mannavöldum og raunar þykir það líklegra en annað sökum þess hve langt er á milli eldanna. Sem stendur eru mestar áhyggjur af eldinum á Pallisades-svæðinu og yfirvöldum gengur illa að ráða niðurlögum hans. Öskuský liggur yfir stórum svæðum í borginni.

Eldarnir eru á fjórum svæðum í og við Los Angeles.
Eldarnir eru á fjórum svæðum í og við Los Angeles.

Með hjartað í buxunum 

Dröfn býr sjálf hvað næst eldinum á Eaton-svæðinu en hann leitar nú upp til fjalla fjarri byggð sökum þess að Santa Ana-vindurinn, eða djöflavindurinn eins og innfæddir nefna hann, blæs frá byggð. Þá hefur einnig heldur hægst á honum.

„Þetta er ekki búið. Vindarnir geta enn þá breyst. Við bíðum eftir rigningum og erum í raun með hjartað í buxunum,“ segir Dröfn Ösp.

Dröfn starfar sem framleiðandi leikmyndadeildar og er Hollywood-fréttaritari og var í vinnunni við upptöku á auglýsingu fyrir ofurskálina þegar hún ræddi við blaðamann. Sumir samstarfsmanna eru búnir að missa allar eigur sínar.

Dröfn tekur sér stund í vinnunni og ræðir við blaðamann.
Dröfn tekur sér stund í vinnunni og ræðir við blaðamann. Ljósmynd/Johnny Rozas.

Fá ósk um hjálp á klukkutíma fresti 

„Ég á 10-15 vini sem eru búnir að missa allt. Tólf nánir vinir sem búa í Pasedena eru búnir að missa allt. Aðstoðarleikstjórinn er búinn að missa allt. Hús eins aðstoðarmanna minna var það fyrsta sem fór í eldunum við Eaton. Hús listræns stjórnanda í vinnunni var annað af tveimur húsum sem standa eftir í hverfinu sem hann býr í,“ segir Dröfn.

„Við ætlum að taka utan um okkar fólk en ástandið er mjög óreiðukennt. Það hefur verið sett á fót fullt af söfnunum á Carolina fund og við fáum skilaboð á klukkustundarfresti þar sem við erum spurð hvort við eigum eitthvað aflögu fyrir fólk. Það að veita einni manneskju hjálp getur verið verðugt verkefni, en hvað þá núna þegar 12-13 manneskjur sem standa manni nærri eru búnar að missa allt. Þetta er skelfilegt ástand,“ segir Dröfn.

Margir hafa missta allar eigur sínar.
Margir hafa missta allar eigur sínar. AFP

Reynt að brjótast inn til nágrananna   

„Því miður þá er mikið um gripdeildir. Ég er til dæmis í netspjallþræði með nágrönnunum þar sem fram kom að það sást til manns sem var að fara inn í garð til að reyna að brjótast inn til nágranna minna. Og í gær labbaði maður upp að garðyrkjumanni sem var að dytta að plöntum og sagðist þurfa að fara inn því eigandinn hafði leyft honum að fara inn til að ná í mikilvæg gögn. Garðyrkjumaðurinn hringdi bara í eigandann sem kannaðist ekki neitt við neitt. Fólk er því að reyna með öllum ráðum að komast yfir eigur annarra, sem er ömurlegt í þessu ástandi sem ríkir,“ segir Dröfn. 

Settu tryggingafélögum stólinn fyrir dyrnar 

Hún segir þó ástandið einnig eiga sér öllu bjartari hlið.

„Það eru mjög margir að hjálpast að. Þannig er fólk búið að setja saman skjal með öllum gistingum sem eru í borginni og hverjir eru að bjóða afslætti og fría gistingu í borginni. Fólk er að bjóðast til að elda til að koma með mat. Sjálf er ég búin að senda því sem nemur tugum þúsund króna á fólk sem hefur tíma til að versla nauðsynjar sem svo er farið með í neyðarskýlin.“

Undanfarna daga hafa komið fram fregnir af því að tryggingafélögin hyggist draga úr því sem bætt verður í kjölfar eldanna. Mörgum varð hins vegar mjög létt þegar fylkisyfirvöld gáfu það út að slíkt væri ólöglegt.

„En engu að síður er það þannig að sá sem á milljón dollara hús mun ekki fá meira en 450 þúsund dollara til baka,“ segir Dröfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert