Hljóð frá sprengingum og loftvarnarflautum ómuðu um Kænugarð í morgun er Rússar gerðu atlögu að úkraínsku höfuðborginni með drónum.
Árásin er gerð á sama tíma og Keir Starmer, forsætisráðherra Breta, er í sinni fyrstu opinberu heimsókn í Kænugarði til að árétta stuðning Bretlands við Úkraínu.
Vítalí Klitsjkó, borgarstjóri Kænugarðs, staðfesti árásina við fjölmiðla í morgun. Þá hvatti hann íbúa til að halda sig í skýlum.
Í umfjöllun Sky News segir að enginn hafi særst í árásinni.
Starmer tók við embætti forsætisráðherra Bretlands í júlí. Hann hefur fundað sjö sinnum með Volodimír Selenskí Úkraínuforseta en þetta er í fyrsta sinn sem hann leggur leið sína til Kænugarðs.
Í heimsókninni mun ráðherrann meðal annars heimsækja hermenn sem hafa særst í átökunum við Rússland. Þá mun hann undirrita nýjan hundrað ára samning þar sem staðfastur stuðningur Breta við Úkraínu er áréttaður.