Hafa til klukkan 17 til að senda starfsmenn í leyfi

Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritar tilskipanir í forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritar tilskipanir í forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu. AFP/Jim Watson

Senda á ríkisstarfsmenn í Bandaríkjunum sem vinna við að stuðla að jafnrétti og fjölbreytileika í launað leyfi fyrir klukkan 17 að staðartíma en ríkisstjórn Donalds Trumps hefur fyrirskipað að loka slíkum skrifstofum.

Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, greinir frá þessu á samskiptamiðlinum X.

„Sendið tilkynningar á alla starfsmenn DEIA (Fjölbreytileika, jafnréttis, inngildingar og aðgengis) skrifstofunum um að þeir verði settir í launað leyfi sem tekur gildi strax á meðan tekin verða skref í átt til þess að loka öllum verkefnum, skrifstofum og aðgerðaáætlunum sem eru í gildi.“

Ber DEIA að senda tilkynningar á alla starfsmenn fyrir klukkan 17 í dag.

Í tilkynningunni, sem senda á á starfsmennina, er tekið fram að aðgerðaáætlanir DEIA valdi sundrungu milli kynþátta í Bandaríkjunum, séu eyðsla á fjármunum skattgreiðenda og valdi skammarlegri mismunun.

Aðeins tvö kyn verða viðurkennd

Donald Trump var vígður inn í embætti á mánudag. Á þeim stutta tíma sem hann hefur setið í forsetastól í annað sinn hefur hann látið að sér kveða. 

Hann hefur skrifað undir urmul forsetatilskipana og lýst því yfir að aðeins tvö kyn verði viðurkennd í Bandaríkjunum.

Þá hefur hann fellt úr gildi fjölda tilskipana úr forsetatíð Joe Bidens sem styðja við hinsegin samfélagið, þar á meðal hefur hann bundið enda á aðgerðaáætlanir stjórnvalda sem styðja við fjölbreytileika.

Mismunar hvítu fólki

Ákvörðunin um að leggja niður störfin ætti ekki að koma mörgum á óvart en þegar Trump var í framboði talaði hann niður til aðgerðaáætlana DEIA sem hann sagði mismuna hvítu fólki, þá sérstaklega karlmönnum.

„Ríkisstjórn Bidens innleiddi ólöglegar og siðlausar aðgerðaáætlanir, sem bera heitið „fjölbreytileiki, jafnrétti og inngilding“, á nánast öll svið alríkisstjórnarinnar, allt frá flugöryggi að hernaði,“ sagði í einni forsetatilskipuninni sem Trump undirritaði.

Þá lýsti forsetinn einnig andstyggð á kynfjölbreytileika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert