Fimm íslenskir ríkisborgarar voru í nóvember á lista bandarískra yfirvalda yfir alls tæplega eina og hálfa milljón erlendra ríkisborgara sem úrskurðað hefur verið að vísa skuli frá Bandaríkjunum.
Það er sjónvarpsstöðin Fox News sem birtir listann, en hann er svar við fyrirspurn til innflytjendaeftirlits- og tollgæslustofnunarinnar U.S. Immigration and Customs Enforcement, eða ICE, um hve margir erlendir borgarar – sem ekki eru í haldi á vegum refsivörslukerfis landsins – hafi fengið lokaskipun um að yfirgefa Bandaríkin.
Miðast listinn við stöðuna 24. nóvember og voru íslenskir ríkisborgarar á honum þá fimm talsins.
Slær ICE þann varnagla að stofnunin sjái sér ekki fært að greina frá ástæðum þess að ekki hafi tekist að koma erlendu borgurunum frá Bandaríkjunum. Þær séu mismunandi.
Er í svarinu vísað til áttunda kafla bandarísku alríkislaganna, sem meðal annars fjallar um ólöglega innflytjendur, þar sem fram kemur að forsenda skráningar erlends ríkisborgara á brottvísunarlistann sé að dómari við innflytjendadómstól, eða sambærilegur úrskurðaraðili að lögum, hafi kveðið upp úrskurð um að viðkomandi skuli yfirgefa landið.
Frá þessu séu svo undantekningar byggðar á mannúðarsjónarmiðum sem svipar til þeirra sem Dyflinnarreglugerðin telur fram, það er að sá, sem vísa skuli úr landi, eigi vísar pyntingar, ofsóknir eða dauða í landi því sem hann er gerður brottrækur til.
Íslenskir borgarar eru ekki fámennastir á listanum. Fimm eða færri borgarar Arúba, Bresku-Jómfrúreyja, Brúnei, Cayman-eyja, Kómoros, Frönsku-Pólýnesíu, Kíríbatí, Liechtenstein, Macau, Madagaskar, Mónakó, Norður-Kóreu, Papúa Nýju-Gíneu, San Marínó, Sao Tome og Principe, Seychelles-eyjum, Sólomon-eyjum, St. Pierre og Miquelon, Túvalú og Vanúatú voru einnig á brottvísunarlistanum 24. nóvember.
Fjölmennastir eru hins vegar borgarar Brasilíu (38.677), Kína (37.908), Kúbu (42,084), El Salvador (203.822), Gvatemala (253.413), Hondúras (261.651), Níkaragva (45.995) og Mexíkó (252.044).
Heildarfjöldi á lista ICE er 1.445.549 erlendir ríkisborgarar.