Þörf er á meira en 53 milljörðum bandaríkjadala, eða um 7.500 milljörðum íslenskra króna, til þess að endurbyggja Gasasvæðið og binda endi á þær hörmungar sem gengið hafa yfir í stríði Ísraela og Hamas-samtakanna.
Þetta er mat Sameinuðu þjóðanna sem birt var í dag. Þar segir að á fyrstu þremur árunum þurfi 20 milljarða dala í verkefnið, sem samsvarar tæpum 3.000 milljörðum króna.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að ekki sé búið að meta heildarþarfir að fullu sökum núverandi ástands á Gasasvæðinu.
Hann segir þó bráðabirgðamatið gefa vísbendingu um umfang þeirrar uppbyggingar sem mun þurfa að eiga sér stað þar að stríði loknu.