„Ef Hamas skilar ekki gíslunum mun vopnahléi ljúka“

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur fyrirskipað hersveitum sínum að safnast saman í og við Gasa. Hann segir að ef Hamas-samtökin frelsi ekki gísla fyrir hádegi á laugardaginn verði vopnahléssamningi við Hamas rift.

Hamas-samtökin tilkynntu í fyrradag að þau ætluðu að slá frest á frelsun gísla vegna meintra brota Ísraelsmanna á vopnahléssamkomulaginu og hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti varað við því að allt fari til helvítis ef gíslarnir verði ekki látnir lausir úr haldi.

„Ef Hamas skilar ekki gíslum okkar fyrir hádegi á laugardaginn mun vopnahléinu ljúka og herinn mun halda áfram hörðum árásum þar til sigur vinnst á Hamas,“ segir Netanjahú.

Samkvæmt vopnahléssamningi Ísraels og Hamas, sem tók gildi 19. janúar, ber hamas að sleppa 33 ísraelskum gíslum á fyrstu 42 dögum vopnahlésins. Aftur á móti verða Ísraelsmenn að sleppa 1.900 fögum úr ísraelskum fangelsum.

Hvetur aðila til að standa við skuldbindingar

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur hvatt Ísraela og Hamas til að tryggja að vopnahléssamningurinn haldi áfram.

„Ég biðla til Hamas um að halda áfram með fyrirhugaða frelsun gísla næsta laugardag og báðir aðilar verða að standa að fullu við skuldbindingar sínar í vopnahléssamkomulaginu og hefja aftur samningaviðræður í Doha fyrir annan áfanga,“ segir Guterres í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert