48.000 þjófnaðir – nýtt verklag lögreglu

Danir hjóla mikið enda býður flatlendi landsins og veðurfar upp …
Danir hjóla mikið enda býður flatlendi landsins og veðurfar upp á þennan ferðamáta umfram margt annað. Fyrir vikið er reiðhjólum stolið þar í gríð og erg. Lögregla hefur nú gripið til aðgerða. Ljósmynd/Wikipedia.org/heb

Danska lögreglan hefur skorið upp herör í baráttu sinni við reiðhjólaþjófa, enda tilkynnt um 48.000 þjófnaði ár hvert á þessum vinsælu reiðskjótum í landi þar sem hæsti punktur nær tæpan 171 metra upp fyrir sjávarmál og fótstigin farartæki því takmörkuð áskorun.

Er lögreglu nú heimilt, samkvæmt samþykktum þar um, að stöðva hjólreiðafólk af handahófi á götum og kanna stellnúmer færleiks þess sem svo er borið rafrænt undir skrár lögreglu yfir stolna fararskjóta og mega knapar búa sig undir vandræði komi númerið þar upp.

„Nú hugsar fólk sig tvisvar um, vitandi að það má eiga von á að vera gripið glóðvolgt og slíkt fýsir engan,“ segir Peter Veje, yfirmaður umferðarlögreglu dönsku höfuðborgarinnar Kaupmannahafnar, við danska ríkisútvarpið DR.

Nýjar aðferðir skila árangri

Kasper Skotte Ejlskov sætti eftirliti lögreglu við Dybbølsbro þar í borginni er hann fór þar um á hjóli sem hann keypti notað. „Þeir ætluðu nú ekki að finna stellnúmerið í fyrstu af því að hjólið hafði verið lakkað upp á nýtt,“ segir Ejlskov við þá ríkisútvarpsmenn er tóku hann tali. Reyndist gæðingurinn notaði óstolinn er upp var staðið.

Einhverju hafa nýjar eftirlitsaðferðir þó skilað fékk DR upplýst. Í gömlu herstöðinni og fríríkinu Kristjaníu reyndust tveir hjólreiðamenn ekki eigendur gæðinga í þeirra vörslum og beisluðu lögregluþjónar því ganda þeirra og vænta mennirnir kæru fyrir handhöfn þýfis.

Veje hjá lögreglunni segir nýjar verklagsreglur á þessu sviði vonandi verða til þess að fólk gangi úr skugga um það, áður en það kaupir notaða álfáka, að ekki sé keyptur kötturinn í sekknum og um þýfi að ræða. Þá sitji það sjálft í súpunni.

DR

TV2 Øst

TV2 Fyn (hjóli stolið hvern stundarfjórðung)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert