Dönsk stjórnvöld boða 10,2 milljóna króna aukafjárveitingu til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, upphæð sem nemur 200 milljónum íslenskra króna, samkvæmt tilkynningu ríkisstjórnar Danmerkur í morgun.
Kemur þar enn fremur fram að fjárveitingin skuli styrkja sjálfstæði stofnunarinnar og innbyrðis endurskipulagningu hennar, en UNRWA hefur átt í vök að verjast eftir að ísraelsk stjórnvöld sökuðu starfsfólk hennar um að hafa verið Hamas-hryðjuverkasamtökunum palestínsku til fulltingis við leifturárás þeirra á Ísrael í október 2023.
Setti ísraelska þingið í framhaldinu lög sem bönnuðu allt starf UNRWA á ísraelsku yfirráðasvæði.
Ollu ásakanir Ísraelsmanna miklum úlfaþyt á sínum tíma og kippti fjöldi stuðningsaðila UNRWA að sér höndunum hvað fjárveitingar snerti þótt flestir þeirra tækju að veita stofnuninni fé á nýjan leik síðar meir.
Hafa Sameinuðu þjóðirnar lýst því yfir að stofnunin muni halda hjálparstarfi sínu áfram á öllum svæðum Palestínu.
„Aukinn stuðningur Dana er órækt merki þess að við stöndum þétt við bakið á starfi og tilgangi UNRWA og styðjum áherslur stofnunarinnar á innbyrðis endurskipulagningu og sjálfstæði,“ segir danski utanríkisráðherrann Lars Løkke Rasmussen í eigin tilkynningu þar sem ráðherra lætur þess enn fremur getið að lagasetning Ísraela til höfuðs UNRWA valdi honum óróa.
Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna á að baki rúmlega sjö áratuga hjálparstarf í þágu palestínskra flóttamanna víða um Mið-Austurlönd auk langvarandi ósættis við ísraelsk stjórnvöld sem brigsla stofnuninni um að grafa undan öryggi Ísraelsríkis.