„Eitthvað verður að breytast í Þýskalandi“

Börn voru meðal þeirra sem slösuðust. Á myndinni má sjá …
Börn voru meðal þeirra sem slösuðust. Á myndinni má sjá barnavagn á götunni. AFP/Michaela Stache

Afganski hælisleitandinn sem ók bifreið inn í hóp fólks í München í Þýskalandi í morgun kom til landsins árið 2016. Lögreglan hafði áður haft afskipti af manninum og hælisumsókn hans verið synjað, en honum var samt ekki vísað úr landi. 

28 særðust í árásinni, þar á meðal börn, og eru nokkrir alvarlega særðir. Ökumaðurinn var handtekinn á vettvangi og skömmu seinna var greint frá því að um 24 ára gamlan karlmann frá Afganistan væri að ræða.

Maðurinn heitir Farhad N. og hælisumsókn hans var synjað af þýskum yfirvöldum en hann var ekki dæmdur til brottvísunar. 

Sagður vera með „öfgafulla hvata“

Rík­is­stjóri Bæjaralands, Markus Söder, sagði að ekki væri um fyrstu svona árásina að ræða og að grípa þyrfti til aðgerða.

„Auk þess að takast á við hvert tilvik fyrir sig og sýna samúð, verður atvikið að hafa afleiðingar,“ sagði Söder.

„Við getum ekki farið frá árás til árásar og sýnt bara umhyggju, heldur verðum við í raun að breyta einhverju.“

Yfirvöld segjast hafa „vísbendingar um öfgafulla hvata“ hjá árásarmanninum. 

Lögreglumenn skutu á bílinn til að reyna að stöðva ökumanninn.
Lögreglumenn skutu á bílinn til að reyna að stöðva ökumanninn. AFP/Michaela Stache

Lögreglan áður haft afskipti af manninum

Lögreglan hafði áður haft afskipti af manninum vegna þjófnaðar og fíkniefnabrota, samkvæmt innanríkisráðherra Bæjarlands. WELT greinir frá því að á samfélagsmiðum Farhad N. megi sjá að hann var með ýmsar vísanir í íslam.

Þjóðverjar ganga til kosninga 23. febrúar og hafa útlendingamálin verið mikið hitamál í aðdraganda þeirra.

Búast má við því að þessi árás verði vatn á myllu þeirra sem tala fyrir hertari löggjöf en í síðasta mánuði réðst afganskur karlmaður á fólk með hníf og myrti tvo. Í desember var bíl ekið inn í jólamarkað og var maður frá Sádi-Arabíu handtekinn fyrir þann verknað.

Scholz segir að manninum verði refsað

Olaf Scholz, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, sagði í kjölfar árásarinnar:

„Þessi gerandi getur ekki vænst neinnar vægðar. Honum verður að vera refsað og hann verður að fara úr landi.“

„Við munum ávallt halda uppi lögum og reglu,“ skrifaði Friedrich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata, á samfélagsmiðlum.

„Allir verða að finna fyrir öryggi í landinu okkar á ný. Eitthvað verður að breytast í Þýskalandi,“ skrifaði Merz en kannanir benda til þess að Kristilegir demókratar muni taka við stjórn landsins eftir kosningar.

Alice Weidel, leiðtogi þjóðernisflokksins AfD, kallaði eftir stórfelldum breytingum í innflytjendamálum í kjölfar árásarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert