Gíslar verða látnir lausir samkvæmt vopnahléssamningi Hamas-samtakanna og Ísraels. Vekur það vonir um að hægt verði að koma í veg fyrir frekari stórátök í stríðinu.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, fyrirskipaði hersveitum sínum í gær að safnast saman við Gasa. Sagði hann að ef Hamas myndi ekki frelsa gísla fyrir hádegi á laugardaginn yrði vopnahléssamningnum rift.
Hamas-samtökin tilkynntu fyrir þremur dögum að þau ætluðu að slá á frest frelsun gísla vegna meintra brota Ísraelsmanna á vopnahléssamkomulaginu og hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti varað við því að allt fari til helvítis ef gíslarnir verði ekki látnir lausir úr haldi.
Fulltrúar á vegum Hamas hafa tekið þátt í viðræðum í Kaíró í Egyptalandi og segja nú að sáttasemjarar frá Egyptalandi og Katar hafi staðfest að löndin muni hjálpa til við að koma í veg fyrir hindranir svo að samningurinn muni enn standa.
Ísrael hefur þó ekki tjáð sig.
Í yfirlýsingu frá Hamas segir að í viðræðunum hefði verið einblínt á að allir skilmálar samningsins yrðu uppfylltir, þá sérstaklega í sambandi við afhendingu hjólhýsa, tjalda, byggingarbúnaðar, læknisbirgða og eldsneytis.
Var þá tekið fram í yfirlýsingunni að tónninn í viðræðunum væri jákvæður og að sáttasemjarar hafi fallist á að koma til móts við samtökin.
Ríkismiðill Egyptalands, Al Jazeera, greindi svo frá því í dag að Egyptaland og Katar hefðu náð að koma í veg fyrir hindranir á milli Hamas og Ísraels og að vopnahléssamningurinn yrði áfram virtur.
Einnig var því haldið fram að hjólhýsi yrðu send til Gasa ásamt byggingarbúnaði.
Ísraelskir miðlar hafa hins vegar neitað því og sagt að um falsfréttir sé að ræða. Var það svo staðfest af talsmanni ríkisstjórnar Ísraels að engin hjólhýsi yrðu send á svæðið og ekki heldur byggingarbúnaður.
Samkvæmt vopnahléssamningi Ísraels og Hamas, sem tók gildi 19. janúar, ber Hamas að sleppa 33 ísraelskum gíslum á fyrstu 42 dögum vopnahlésins. Aftur á móti verða Ísraelsmenn að sleppa 1.900 föngum úr ísraelskum fangelsum.