Öldungadeildin samþykkir Robert F. Kennedy yngri

Kennedy þykir umdeildur en hann hefur lýst efasemdum um öryggi …
Kennedy þykir umdeildur en hann hefur lýst efasemdum um öryggi bóluefna. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt tilnefningu Robert F. Kennedy yngri til þess að gegna embætti heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna í ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. 

Allir demókratar kusu gegn tilnefningunni en 52 repúblikanar samþykktu tilnefninguna. 

Aðeins einn repúblikani kaus gegn Kennedy og það var Mitch McConnell, fyrrverandi leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni.

Umdeildur maður

Í fyrstu var talið að það gæti reynst erfitt fyrir repúblikana að samþykkja Kennedy vegna skoðana hans en hann er mikill umhverfisverndarsinni og ekki á móti fóstureyðingum.

Kennedy hefur einnig lýst efasemdum um öryggi bóluefna og vildi láta rannsaka öryggi þeirra betur. Í yfirheyrslum þingsins lofaði hann því ítrekað aðspurður að hann myndi ekki reyna að hefta aðgengi fólks að bólusetningum. 

Þar að auki hefur hann umdeildar skoðanir um hin ýmsu mál sem snerta heilbrigðismál en hann á sér á sama tíma mjög marga stuðningsmenn sem segja hann vilja taka á slæmri heilsu margra Bandaríkjamanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert