„Þrjár frábærar vikur, kannski þær bestu nokkru sinni, en í dag er stór dagur: Gagntollar!!! Gerum Ameríku mikla á ný!!!“ skrifar Donald Trump Bandaríkjaforseti á samfélagsmiðil sinn, Truth Social, í dag, allt með hástöfum að algengum rithætti hans.
Með tilkynningunni boðar hann sömu aðflutningsgjöld á vörur frá öðrum ríkjum, án þess að tilgreina sérstök ríki, en vitað er að indverski forsætisráðherrann Narendra Modi mun eiga fund með forsetanum í Washington í dag.
Boðar Trump blaðamannafund um nýju tollana klukkan 13 að staðartíma, 18 á Íslandi, en samkvæmt því sem hann hefur áður látið í veðri vaka hyggst hann leggja sömu tollprósentu á önnur ríki og þau hafa gagnvart innfluttum vörum frá Bandaríkjunum og hafa greiningaraðilar varað við neikvæðum áhrifum þeirrar aðferðafræði á rísandi hagkerfi á borð við Indland og Taíland sem taka há aðflutningsgjöld af innflutningi frá Bandaríkjunum.
Lönd á borð við Suður-Kóreu, sem þegar eru í samningssambandi við Bandaríkin um innflutning, verði hins vegar síður fyrir áhrifum.
Hefur Trump ítrekað lýst því yfir að honum gremjist viðskiptahalli Bandaríkjanna gagnvart öðrum ríkjum gróflega og krefst þess að þau herði sig við innflutning bandarískrar framleiðslu úr því Bandaríkjamenn kaupi þeirra framleiðslu.
„Auga fyrir auga, toll fyrir toll, nákvæmlega sömu upphæð,“ lofaði Trump í kosningabaráttu sinni og virðist nú ætla að efna það loforð.
„Markmið Trumps um gagnkvæma tolla miða að því að tryggja sanngirni í garð bandarísks útflutnings sem óbeint gæti valdið ójöfnuði milli Bandaríkjanna og bandalagsríkja þeirra,“ segja greinendur japanska fjárfestingarbankans Nomura um útspil Trumps.
Enn sem komið er liggur það ekki fyrir hvort nýju gagnkvæmu tollarnir verði valkostur við almennu tollana, sem þegar eru fyrir hendi og liggja milli tíu og tuttugu prósenta, eða hvort þeir verði sjálfstæður tollur sem leggst þá ofan á þá fyrrnefndu.