Volodimír Selenskí Úkraínuforseti vill ræða við bandarísk stjórnvöld um sameiginlega afstöðu ríkjanna áður en Donald Trump Bandaríkjaforseti fundar formlega með Rússlandsforseta um hvernig megi binda enda á innrásarstríð Rússa í Úkraínu.
Trump segist hafa átt langt og mjög árangursríkt samtal við Pútín í gær þar sem þeir sammæltust um að hefja tafarlaust viðræður um að enda stríðið.
Selenskí og háttsettir úkraínskir embættismenn funda í vikunni með bandamönnum Trumps í Kænugarði, Brussel og á öryggisráðstefnunni í München.
„Úkraínsk-bandarísku-fundirnir eru mikið forgangsmál okkar,“ segir Selenskí.
„Það verður aðeins eftir þessa fundi, eftir að við höfum komið okkur saman um áætlun til að stöðva Pútín, sem mér finnst sanngjarnt að hefja viðræður við Rússana,“ hélt hann áfram.
Trump hefur einnig rætt við Selenskí í gegnum síma og hefur Úkraínuforsetinn lýst samtölunum sem breiðum og þýðingarmiklum.
Selenskí lýsti þó óánægju með að Trump skyldi hafa rætt við Pútín áður en hann ræddi við sig, þó svo að hann vissi að hann hefði hagsmuni Úkraínumanna fyrir brjósti.
Selenskí upplýsti þá einnig að Bandaríkjaforsetinn vildi ræða við bæði Pútín og Selenskí á sama tíma, án þess þó að gera grein fyrir hvers vegna það hefði ekki þegar gerst.
Þá segist Selenskí hafa upplýst Trump að Rússar væru líklegir til að ráðast á Úkraínu aftur ef viðeigandi öryggisráðstafanir yrðu ekki gerðar.