Alþjóðakjarnorkumálastofnunin IAEA er á hæsta viðbúnaðarstigi eftir að dróna var flogið á hlífðarvirkið utan um kjarnaofn númer fjögur í Tsjernóbyl í Úkraínu í nótt og hefur stofnunin sent frá sér myndir af opi á hvelfingunni sem reyk og loga leggur út um.
Rammgerð hlífðarhvelfingin, sem gerð er úr miklu magni steinsteypu og stáls, hefur það hlutverk að vernda heimsbyggðina fyrir geisluninni sem losnaði úr læðingi þegar kjarnaofninn sprakk klukkan 01:23 aðfaranótt 26. apríl 1986 í umfangsmesta kjarnorkuslysi sögunnar og geislavirkt ský dreifði úr sér yfir 150.000 ferkílómetra svæði í þáverandi Sovétríkjunum.
Eftir því sem IAEA greinir frá mælist geislavirkni eðlileg utan sem innan ysta byrðis hvelfingarinnar sem dróninn skall á laust fyrir klukkan tvö í nótt að staðartíma, rétt fyrir miðnætti að íslenskum tíma.
Rafael Grossi yfirmaður IAEA skrifar á samfélagsmiðilinn X að nú sé ekki tími til sjálfhælni þótt ekki mælist aukin geislavirkni. „IAEA er enn þá í viðbragðsstöðu,“ skrifar Grossi.
Volódimír Selenskí Úkraínuforseti segir að Rússar standi á bak við atvikið sem sé árás á kjarnorkuverið sem augu heimsbyggðarinnar hvíldu á vorið 1986 – íbúar Sovétríkjanna sálugu fréttu hins vegar síðastir af slysinu vegna ritskoðunarstefnu þarlendra stjórnvalda. Mikhaíl Gorbatsjof, aðalritari Sovéska kommúnistaflokksins, tilkynnti Sovétmönnum um slysið í sjónvarpsávarpi 14. maí og sagði alþjóðlegar fréttir af því einkennast af áróðri og lygum.
Rússnesk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um drónaatvikið í nótt.