Ekki einfalt verk að fylla í skarð Bandaríkjanna

Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands.
Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands. AFP

Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, segir að það yrði erfitt fyrir Evrópu að koma í stað bandarískra hermanna í álfunni.

Ummælin lét hann falla á öryggisráðstefnu í München í Þýskalandi í tengslum við vangaveltur þess efnis að bandarísk yfirvöld hyggist fækka í herliði sínu í Evrópu.

Hann sagði að Evrópa þyrfti að fylla í skarðið en að það myndi ekki gerast á einni nóttu.

Christoph Heusgen, framkvæmdastjóri ráðstefnunnar, sagði í samtali við þýska ríkisútvarpið fyrr í dag að hann ætti von á því að J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, myndi greina frá því á ráðstefnunni að stór hluti bandaríska herliðsins yrði kallaður heim frá Evrópu.

Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Vilja beina sjónum sínum að Asíu

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur sagt að hún verði að beina sjónum sínum frekar að Asíu til að mæta Kína, sem er helsti keppinautur Bandaríkjanna.

Pistorius segir að það sé óraunhæft að ríki Evrópu geti á skömmum tíma fyllt skarðið sem Bandaríkin muni skilja eftir sig.

Hann segir jafnframt að hann hafi lagt til við Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að gerð verði áætlun um framhaldið, eða vegvísir, en þeir ræddu málin á fundinum í Þýskalandi. Þar yrði m.a. tryggt að breytt staða myndi ekki draga úr viðbragði hersveita í álfunni.

Pistorius segir að Hegseth sé sammála um mikilvægi slíks vegvísis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert