Óútskýrð dauðsföll valda áhyggjum

Feðgarnir Vilhjálmur og Karl við Sea King-þyrlu sem Vilhjálmur flaug …
Feðgarnir Vilhjálmur og Karl við Sea King-þyrlu sem Vilhjálmur flaug í breska flughernum á yngri árum. AFP/Chris Jackson

Mikil umræða hefur verið í Bretlandi að undanförnu um dauðsföll áhafna úr þyrlusveitum hersins þar í landi.

Engar skýringar hafa fengist á umræddum dauðsföllum en stjórnvöld í Bretlandi hafa greitt bætur til þeirra sem greinst hafa með krabbamein eftir störf sín í háloftunum.

Bresku blöðin The Times og The Telegraph hafa nýverið greint frá andláti flugliðþjálfans Zach Stubbings sem var aðeins 47 ára þegar hann lést. Stubbings þjónaði í breska flughernum á sama tíma og Vilhjálmur Bretaprins.

Hann lést af völdum krabbameins eftir að hafa andað að sér eiturgufum frá þyrlum að því er Telegraph greinir frá. Stubbings varði níu árum af starfsævi sinni á Sea King-þyrlum sem breski flugherinn notar. Á myndinni hér að ofan má sjá Vilhjálm Bretaprins og Karl konung stíga út úr Sea King-þyrlu þegar sá fyrrnefndi flaug slíkri árið 2012.

Setja af stað rannsókn

Tugir áhafnarmeðlima þyrlna í breska flughernum hafa verið greindir með krabbamein, svo sem lungnakrabbamein, eistnakrabbamein og mergæxli. Hafa þeir flogið á ólíkum gerðum af þyrlum; Sea King, Wessex, Puma og Chinook samkvæmt umfjöllun The Times. Í kjölfar þessara veikinda hóf breska varnarmálaráðuneytið rannsókn á öllum þyrlum hersins sem kunna að hafa gefið frá sér eiturgufur er gætu átt sök á þessum veikindum.

Engin þekkt tilvik hér á landi

Morgunblaðið leitaði til Landhelgisgæslunnar og spurðist fyrir um hvort þar á bæ væru dæmi um viðlíka veikindi starfsmanna í kringum þyrlusveit. Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi segir að þar á bæ séu engin þekkt tilvik um slíkt og engin umræða hafi verið um málið.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert