Sex fórust og á þriðja tug eru slasaðir eftir að eldur kviknaði á byggingarsvæði Banyan Tree lúxushótels sem er verið að byggja í hafnarborginni Busan í S-Kóreu.
Eldurinn kviknaði klukkan 11 að staðartíma og voru 100 starfsmenn á svæðinu þegar eldurinn blossaði upp á fyrstu hæð þar sem einangrunarefni voru geymd.
Það tók slökkviliðsmenn tæpar þrjár klukkustundir að ráða niðurlögum eldsins sem breiddist út um bygginguna og voru þyrlur notaðar til að bjarga fólki á 12. hæð byggingarinnar.